Viðar Örn samdi til fjögurra ára

Viðar Örn ásamt Jordi Cruyff, íþróttastjóra Maccabi.
Viðar Örn ásamt Jordi Cruyff, íþróttastjóra Maccabi. Ljósmynd/www.maccabi-tlv.co.il

Landsliðsmaðurinn Viðar Örn Kjartansson er búinn að skrifa undir fjögurra ára samning við ísraelska liðið Maccabi Tel Aviv að því er fram kemur á vef félagsins í dag.

Viðar Örn skrifaði undir samninginn að lokinni læknisskoðun en hann kemur til ísraelska liðsins frá sænska liðinu Malmö sem í gær samþykkti tilboð frá félaginu í Viðar Örn en það ku vera eitthvað í kringum 500 milljónir króna.

„Við höfum lengi reynt að semja við Viðar og við erum mjög ánægðir með að hafa fengið hann til okkar. Hann er frábær markaskorari og við vonum að hann geti hjálpað okkur á því sviði,“ segir Jordi Cruyff, íþróttastjóri Maccabi Tel, á vef félagsins.

„Ég vil þakka öllum hjá Malmö, leikmönnum, þjálfurum og stuðningsmönnum,. Ég átti magnaðan tíma þar en nú hef ég nýjan kafla á mínum ferli,“ segir Viðar Örn, sem fékk mjög freistandi tilboð frá félaginu eins og fram kemur í viðtali við hann í Morgunblaðinu í dag.

Viðar Örn er 26 ára gamall Selfyssingur sem leikið hefur með Selfossi, ÍBV og Fylki en atvinnumannaferilinn hóf hann hjá norska liðinu Vålerenga árið 2014 þar sem hann endaði sem markakóngur norsku úrvalsdeildarinnar. Hann lék eitt ár með norska liðinu og fór þaðan til kínverska liðsins Jiangsu Sainty sem hann lék með á síðustu leiktíð en í byrjun þessa árs samdi hann við Malmö.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert