Lauf­ey hleypti titil­bar­átt­unni í háa­loft

Katrín Ásbjörnsdóttir og Elísa Viðarsdóttir í baráttunni á Valsvelli í …
Katrín Ásbjörnsdóttir og Elísa Viðarsdóttir í baráttunni á Valsvelli í kvöld. mbl.is/Ófeigur

Valur vann dramatískan sigur á Stjörnunni, 2:1, í 14. umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu á Valsvelli í kvöld. Valskonur voru manni færri þegar Laufey Björnsdóttir skoraði sigurmarkið rétt fyrir leikslok.

Stjarnan er áfram á toppi deildarinnar með 34 stig en Valur komst upp fyrir Breiðablik í 2. sæti með 30 stig. Blikar, sem eru með 29 stig og mæta Stjörnunni í 16. umferð, eiga leik til góða á morgun gegn Fylki.

Leikurinn í kvöld var frábær skemmtun. Strax á 5. mínútu kom Donna Key Henry Stjörnunni yfir þegar hún lagði boltann í netið af yfirvegun eftir góðan undirbúning Öglu Maríu Albertsdóttur. Valskonur komust betur inn í leikinn þegar leið á fyrri hálfleik og það var ekkert óvænt við það að Vesna Elísa Smiljkovic skyldi jafna metin eftir rúmlega hálftíma, með skalla eftir fyrirgjöf Rúnu Sifjar Stefánsdóttur. Staðan var 1:1 í hálfleik.

Seinni hálfleikur var reyndar heldur rólegur framan af en þegar nær dró lokum fóru hlutirnir að gerast. Ólafur Tryggvi Brynjólfsson þjálfari Vals skipti hinum ungu Hlín Eiríksdóttur og Málfríði Önnu Eiríksdóttur inná, og þær áttu góða innkomu.

Pála Marie Einarsdóttir fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt þegar venjulegum leiktíma var að ljúka, og Valskonur því manni færri. Þær sóttu hins vegar áfram og uppskáru víti þegar skot Hlífar fór í hönd varnarmanns Stjörnunnar. Margrét Lára Viðarsdóttir tók vítið en skaut yfir markið. Þá var hins vegar enn tími fyrir sigurmark því Laufey komst í skotfæri rétt utan teigs, og smellti boltanum efst í hægra hornið með frábærri spyrnu.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Valur 2:1 Stjarnan opna loka
90. mín. Pála Marie Einarsdóttir (Valur) fær rautt spjald Pála er búin að vera að dansa á línunni og nú fékk Bríet nóg, sýndi Pálu gula spjaldið öðru sinni og þar með rauða spjaldið, fyrir brot á Hörpu í upphafi skyndisóknar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert