Vildum klára þetta á heimavelli

Heimir Guðjónsson.
Heimir Guðjónsson. mbl.is/Ómar

„Að sjálfsögðu er alltaf svekkjandi þegar FH nær ekki í þrjú stig,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH-inga, í samtali við mbl.is eftir 1:1-jafntefli liðsins við Val í 20. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu. FH hefði orðið meistari með sigri en þarf að bíða enn um sinn.

„Ég held að við getum sætt okkur við þetta stig miðað við frammistöðuna. Valsararnir voru heilt yfir sterkari og Gunnar [Nielsen] varði tvisvar, þrisvar mjög vel. En á móti kemur að síðustu mínúturnar tókum við yfir leikinn og fengum þrjú fín tækifæri til að klára leikinn, en það gekk ekki eftir,“ sagði Heimir.

Valur komst yfir úr vítaspyrnu í fyrri hálfleik eftir að Emil Pálsson fékk boltann í höndina. Heimi fannst það strangur dómur.

„Mér fannst vítið sem Valur fékk mjög strangur dómur. Boltinn fer í höndina á Emil af varla eins metra færi held ég og það var svipað atvik í seinni hálfleik sem ekkert var dæmt á. En það sem hefur háð okkur í síðustu leikjum er að við höfum ekki komið inn í leikinn með það að markmiði að vinna inn réttinn til að spila. Þú kemur ekki inn í leiki og byrjar strax að spila einhvern samba-bolta, þú verður að vinna þér inn réttinn til að gera það,“ sagði Heimir.

FH-ingar þurfa nú að bíða enn um sinn eftir því að geta fagnað Íslandsmeistaratitlinum sem er þó innan seilingar. Hann getur til að mynda verið í höfn á morgun falli önnur úrslit með FH-ingum, en hefði ekki verið skemmtilegra að klára dæmið sjálfir?

„Að sjálfsögðu var það stefnan og við vildum klára þetta á heimavelli fyrir framan stuðningsmennina sem hafa staðið frábærlega við bakið á okkur í allt sumar. En það verður að bíða betri tíma og við verðum bara að halda áfram að sækja að titlinum,“ sagði Heimir Guðjónsson í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert