Skítsama hvernig hinn leikurinn fór

Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði tvö mörk i dag.
Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði tvö mörk i dag. Styrmir Kári

Katrín Ásbjörnsdóttir átti góðan leik fyrir Stjörnuna og skoraði tvö mörk í 3:0-sigri liðsins á KR í næstsíðustu umferð Pepsi-deildar kvenna í dag. Stjarnan er með tveggja stiga forskot á Breiðablik á toppnum fyrir lokaumferðina og hefur því málin í sínum höndum.

Sjá: Stjarn­an er skrefi nær titl­in­um

„Þetta er algjörlega í okkar höndum, við tökum þetta á heimavelli í næstu viku og klárum þetta með stæl. Við breytum ekki neinu heldur gerum það sem við höfum verið að gera í sumar og það hefur skilað sér,“ sagði Katrín við mbl.is eftir leikinn. Hún var skiljanlega sátt við sigurinn þó hann hafi verið nokkuð torsóttur framan af.

„Þetta var einmitt það sem við lögðum upp með, þó við höfum verið lengi í gang í fyrri hálfleik. En þolinmæðin skilaði þessu og það er það sem við höfum sýnt í sumar,“ sagði Katrín, en síðara mark hennar kom af vítapunktinum. Þar hafði hún heppnina svolítið með sér þar sem Hrafnhildur Agnarsdóttir í marki KR var í boltanum.

„Þetta er besta vinkona mín í markinu og hún tók mig svolítið á taugum með því að hlæja að mér og brosa til mín. Hún kann á mig en það er fínt að hann fór inn,“ sagði Katrín.

Stjarnan hefði getað orðið Íslandsmeistari í dag ef Breiðablik hefði misstigið sig gegn ÍA. Var liðið að fylgjast með gangi mála í hinum leiknum í dag?

„Alls ekki, ég veit ekki einu sinni hvernig hann fór. En þetta er það sem við erum að gera; hugsa um okkur sjálfar og það þurfum við að gera til þess að ná þessu. Hætta að pæla í einhverjum öðrum svo ég veit ekkert hvernig hinn leikurinn fór og er skítsama um það. Við ætlum bara að klára okkar,“ sagði Katrín Ásbjörnsdóttir í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert