Nýttum færin í dag

Aron Bjarnason skoraði þrjú marka ÍBV í dag.
Aron Bjarnason skoraði þrjú marka ÍBV í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Ég er mjög ánægður og þetta er frábær sigur,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari ÍBV, eftir stórsigur Eyjamanna á Val á Hásteinsvelli. „Þetta var sigur liðsins. Það voru allir tilbúnir að berjast fyrir ÍBV í dag. Munurinn á liðunum var að við vildum þetta miklu, miklu meira en þeir og Valsmenn ætluðu bara að koma og hirða þessi þrjú stig.“

„Við erum ekki búnir að bjarga okkur alveg í deildinni en þetta er gríðarlega stórt skref í rétta átt. Gaman að sjá þegar strákarnir finna að þeir geta unnið hvaða lið sem er þegar þeir leggja sig fram. Síðustu fjóra fimm leiki höfum við verið að spila vel en núna nýttum við færin sem við fengum.“

Þegar Alfreð var spurður hvort hann væri ekki ánægður með Aron Bjarnason, sem skoraði þrjú mörk, játti hann því. „Auðvitað var ég ánægður með Aron en ég var líka ánægður með alla í leiknum. Þeir voru allir frábærir.“

Ian Jeffs, annar þjálfara ÍBV, veiktist alvarlega um helgina og var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur í gærmorgun. Alfreð sagði að það hefði vissulega haft áhrif. „En menn voru tilbúnir að leggja meira á sig fyrir Jeffs, sem fær góðar kveðjur frá okkur og við hlökkum til að sjá hann.“

Alfreð neitaði sögusögnum um að Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari hefði aðstoðað við undirbúning leiksins. „Það er ekkert til í því,“ sagði Alfreð og telur sigurinn í dag gott veganesti í leikinn gegn Íslandsmeisturum FH í síðustu umferðinni um næstu helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert