Torsóttur sigur KR í Ólafsvík

KR-ingar fagna í Ólafsvík eftir mark Pálma Rafns Pálmasonar.
KR-ingar fagna í Ólafsvík eftir mark Pálma Rafns Pálmasonar. Ljósmynd/Alfons Finnsson

KR heldur öllu opnu í baráttunni um Evrópusæti eftir að liðið lagði Víking Ólafsvík fyrir vestan, 1:0, í næstsíðustu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í dag. Ólafsvíkingar eru hins vegar enn í bullandi fallhættu fyrir lokaumferðina.

KR réði ferðinni í fyrri hálfleik á meðan lítið gekk fram á við hjá Ólafsvíkingum. Gestirnir komust yfir á 28. mínútu, þegar Aleix Egea í vörn Ólafsvíkinga gerði sig sekan um slæm mistök. Hann náði þá ekki að hreinsa frá heldur lét Pálma Rafn Pálmason fá boltann á silfurfati sem kom honum einum í gegn og vippaði Húsvíkingurinn svo yfir Cristian Martinez í marki Ólafsvíkur. Staðan 1:0 fyrir KR í hálfleik.

Ólafsvíkingar hresstust eftir hlé og pressa þeirra jókst þegar á leið. Þegar um stundarfjórðungur var eftir af leiknum var mark dæmt af þeim sem var mjög umdeildur dómur. Eftir hornspyrnu virtist Stefán Logi Magnússon í marki KR blaka boltanum í eigið net eftir klafs í teignum. Ekkert virtist athugavert í fyrstu fyrr en Erlendur Eiríksson dómari dæmdi markið af seint og um síðir.

Eftir þetta tóku við baráttumiklar lokamínútur þar sem Víkingar reyndu hvað þeir gátu að jafna metin. KR-ingar héldu hins vegar út og uppskáru ansi torsóttan sigur, 1:0, og Ólafsvíkingar voru hreint ekki sáttir með dómara leiksins.

KR er með 35 stig og situr í fjórða sætinu fyrir lokaumferðina, en mikil barátta er um Evrópusæti þar sem aðeins þrjú stig skilja liðin að í 2.-6. sæti deildarinnar. Ólafsvíkingar eru sæti fyrir ofan fall með 21 stig, tveimur stigum meira en Fylkir sem er í fallsæti fyrir lokaumferðina.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is, en nánar verður fjallað um alla leikina í íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun. Viðtöl koma hingað á vefinn síðar í dag.

Víkingur Ó. 0:1 KR opna loka
90. mín. Björn Pálsson (Víkingur Ó.) kemur inn á
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert