Afsökunarbeiðni frá leikmönnum HK

Frá leik HK-inga í sumar.
Frá leik HK-inga í sumar. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

HK í Kópavogi hefur birt aðra yfirlýsingu á vef sínum eftir að vefmiðillinn 433.is birti í dag myndskeið af leikmanni HK þar sem hann sést pissa á fána Breiðabliks á lokahófi HK á laugardagskvöldið.

Yfirlýsingin frá HK;

„Stjórn knattspyrnudeildar HK hefur móttekið afsökunarbeiðni frá leikmönnum meistaraflokks félagsins vegna ósæmilegrar meðferðar á fána Breiðabliks fyrir utan Fagralund síðastliðið laugardagskvöld.

Í afsökunarbeiðni leikmanna kemur m.a. fram að leikmenn harmi atvikið og biðjist innilega afsökunar á því. Þá kemur fram að leikmennirnir telji að hegðun af þessum toga sé ekki til eftirbreytni og samræmist hvorki siðareglum né íþróttamannlegri hegðun. Leikmennirnir segjast taka sameiginlega ábyrgð á atvikinu, þeir muni draga af því lærdóm og taka afleiðingum gerða sinna.

Stjórn knattspyrnudeildar HK ítrekar hér með fyrir hönd félagsins afsökunarbeiðni til allra Blika sem birt var í gær og vonast til þess að geta átt áfram gott og uppbyggilegt samstarf við Breiðablik, svo sem verið hefur.

Atvikið sem um ræðir er litið alvarlegum augum og hefur því verið vísað til umfjöllunar aganefndar í samræmi við lög HK.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert