Starfsmenn KSÍ fá launauppbót

Eggert Magnússon, heiðursformaður KSÍ, Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, Geir …
Eggert Magnússon, heiðursformaður KSÍ, Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, Geir Þorsteinsson formaður KSÍ og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands á leik Íslands og Englands í 16 liða úrslitum á Evrópumótinu í Frakklandi í sumar. Skapti Hallgrímsson

Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að stjórn KSÍ hafi samþykkt á fundi sínum í júlí á þessu ári að starfsfólk sambandsins fái launauppbót sem til kemur vegna álags á starfsfólkið við utanumhald vegna þátttöku karlalandsliðsins í knattspyrnu á Evrópumótinu í Frakklandi í sumar. Uppbótin samsvarar mánaðarlaunum hvers starfsmanns.

„Það var rosalega mikið álag á starfsfólkinu okkar í sumar,“ sagði Gylfi Þór Orrason, gjaldkeri og formaður fjárhagsnefndar KSÍ, um þá ákvörðun að veita starfsfólki sambandsins téða launauppbót.

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, lagði launauppbótina til, en ekki var gert ráð fyrir greiðslu til Geirs í tillögu hans. Gylfi síðan fram tillögu fjárhagsnefndar þess efnis að Geir fengi greiðslu líkt og aðrir starfsmenn á stjórnarfundi í ágúst. Geir vék af þeim fundi þar sem tillaga um launauppbót hans var afgreidd.

„Starfsfólk KSÍ hefur unnið langt umfram það sem umsamið er og þá var komið til móts við það eins og í öðrum fyrirtækjum. Greiðslurnar eru innan eðlilegra marka,“ sagði Geir Þorsteinsson um launauppbótina í samtali við Fréttablaðið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert