„Fólk var búið að afskrifa okkur“

Aron Bjarnason fagnar einu af þremur mörkum sínum gegn Val.
Aron Bjarnason fagnar einu af þremur mörkum sínum gegn Val. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Þetta var gríðarlegur léttir. Við vissum að við gætum bara treyst á okkur sjálfa og það var mjög sætt að vinna svona góðan sigur á Völsurum,“ sagði Aron Bjarnason sem fór á kostum þegar ÍBV vann óhemju mikilvægan sigur á Val, 4:0, í næstsíðustu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í fyrradag.

Eftir sigurinn er ÍBV komið upp í 9. sæti með 22 stig, þremur stigum fyrir ofan Fylki og stigi fyrir ofan Víking Ó., þegar ein umferð er eftir. Markatala Eyjamanna er auk þess fjórum mörkum betri en hjá hinum tveimur liðunum. Sæti ÍBV í Pepsi-deild er því nánast gulltryggt, en eins og sannaðist í Inkasso-deildinni um liðna helgi getur allt gerst í fallbaráttu.

Aron skoraði þrennu í leiknum gegn Val, sína fyrstu á ferlinum, og er þar með orðinn markahæstur Eyjamanna í sumar með fimm mörk. Aron tók undir að þetta hefði verið sinn besti leikur á ferlinum, en þessi tvítugi kantmaður, sem uppalinn er hjá Þrótti R., er á sinni fjórðu leiktíð í Pepsi-deildinni:

„Maður þurfti að gíra sig extra-mikið upp í þennan leik því það var þannig séð allt undir hjá okkur, svo að það yrði ekki mikið stress í lokaumferðinni,“ sagði Aron, sem er ánægður með sína eigin frammistöðu á tímabilinu þó að betur hefði mátt ganga hjá liðinu:

„Ég er nokkuð sáttur með sumarið. Ég er búinn að vera að spila vel, mætti alveg vera kominn með fleiri mörk, en er búinn að vera í byrjunarliðinu í allt sumar og er bara nokkuð sáttur með mitt,“ sagði Aron, sem er að ljúka sinni annarri leiktíð hjá ÍBV, eftir að hafa verið í eitt og hálft ár hjá Fram.

Sjá nánar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag þar sem 21. umferð er gerð upp.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert