Lárus Orri tekur við Þór - Kristján aðstoðar og spilar með liðinu

Kristján Örn Sigurðsson, Aðalsteinn Pálsson formaður knattspyrnudeildar Þórs, og Lárus …
Kristján Örn Sigurðsson, Aðalsteinn Pálsson formaður knattspyrnudeildar Þórs, og Lárus Orri Sigurðsson eftir að skrifað var undir samninginn í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Lárus Orri Sigurðsson hefur verið ráðinn þjálfari 1. deildarliðs Þórs í knattspyrnu karla og hefur samið við liðið til þriggja ára. Kristján Örn, bróðir hans, verður aðstoðarþjálfari og stefnt er að því að hann muni leika með liðinu næsta sumar, en hann mun einnig sinna þjálfun 2. flokks. Þetta kom fram í fréttatilkynningu frá félaginu í dag. 

Bræðurnir taka við liðinu af Halldóri Jóni Sigurðssyni, Donna, sem hætti af persónulegum ástæðum nú í haust eftir að hafa staðið í brúnni síðustu tvö ár.

Hluti af fréttatilkynningu félagsins:

„Lárus Orri er öllum hnútum kunnugur hjá Þór. Hann lék á sínum tíma með liðinu, fyrst sem unglingur 1990 og alls fimm leiktíðir, áður en hann hélt utan og lék sem atvinnumaður á Englandi í rúman áratug. Hann lék síðan á ný með Þór í fimm ár eftir heimkomu 2005. Lárus Orri þjálfaði meistaraflokkslið Þórs frá 2006 til 2010 auk þess að leika með liðinu. Þá þjálfaði Lárus Orri lið KF í Fjallabyggð frá 2011 til 2013.

Lárus Orri á að baki 42 A landsleiki fyrir Ísland og gerði 2 mörk fyrir A-landsliðið. Hann tók þátt í 16 leikjum með U21 landsliðinu, 6 leikjum með U19 landsliðinu og 7 leikjum með landsliði U17. Hann á að baki hátt í 500 leiki með meistaraflokki, þar af 228 með Stoke City og 128 með West Bromwich Albion, m.a. eitt keppnistímabil í ensku Úrvalsdeildinni – Premier League, veturinn 2002 til 2003.

Lárus Orri Sigurðsson er 43 ára, fæddur 4. júní 1973.

Kristján Örn Sigurðsson lék með Þór í yngri flokkunum en eftir 3. aldursflokk lék hann með meistaraflokki Völsungs á Húsavík sumarið 1996, þegar faðir hans, Sigurður Lárusson, tók við þjálfun liðsins. Kristján lék í kjölfarið eitt sumar með KA, fór þaðan til Stoke City á Englandi en lék með KA á ný, 2001 og 2002, að því loknu með KR 2003 og 2004 og varð Íslandsmeistari fyrra árið. Kristján Örn samdi við norska liðið Brann og lék þar sem atvinnumaður 2005 til 2009 og varð norskur meistari 2007. Eftir það lék Kristján með Hönefoss í efstu og næstu efstu deild í Noregi en lagði skóna á hilluna eftir leiktíðina 2014. Hann hyggst nú taka upp þráðinn í eitt ár með Þór.

Kristján Örn tók á sínum tíma þátt í 53 leikjum með A-landsliðið Íslands og skoraði 4 mörk. Hann spilaði hátt í 400 leiki með aðalliðum félagsliða sinna á ferlinum. Kristján Örn á að baki 6 leiki með landsliði U19 og 9 leiki með U17 landsliðinu.

Kristján Örn Sigurðsson er fæddur 7. október 1980 og verður því 36 ára eftir fáeina daga.“

 

Lárus Orri Sigurðsson.
Lárus Orri Sigurðsson. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
Kristján Örn Sigurðsson
Kristján Örn Sigurðsson mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert