Nordenberg í bann vegna ummæla

Pontus Nordenberg í leik með Víkingi Ólafsvík.
Pontus Nordenberg í leik með Víkingi Ólafsvík. mbl.is/Ófeigur

Samkvæmt öruggum heimildum mbl.is hefur Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ úrskurðað Pontus Nordenberg leikmann Víkings Ólafsvíkur í eins leiks bann vegna ummæla sem hann lét falla í garð dómara eftir leik liðsins gegn Fylki í Pepsi-deildinni á dögunum.

Nordenberg lét ummælin falla við myndatökumann Stöð 2 sem var að taka upp myndskeið fyrir Pepsi-mörkin. Þar sagði hann; „Spurðu þá hvað þeir borguðu dómaranum. Guð minn góður. Þú hlýtur að sjá þetta.“

Samkvæmt heimildum mbl.is eru forráðamenn Víkings Ólafsvíkur með málið til skoðunar með lögfræðingi sínum.

Verði Nordenberg í banni verða fjórir leikmenn Ólafsvíkurliðsins í banni í lokaleiknum gegn Stjörnunni á Samungvellinum í Garðabæ á laugardaginn en Eg­ill Jóns­son, Pape Mama­dou Faye og Tom­asz Luba voru allir úrskurðaðir í eins leiks bann í vikunni vegna fjölda gulra spjalda.

Víkingar eru í harðri baráttu um að halda sæti sínu í deildinni en Stjarnan er í slagnum um að vinna sér sæti í Evrópukeppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert