Erlendu leikmennirnir brugðust okkur

Eva Núra Abrahamsdóttir úr Fylki og Bergrós Ásgeirsdóttir úr Selfossi …
Eva Núra Abrahamsdóttir úr Fylki og Bergrós Ásgeirsdóttir úr Selfossi í leiknum í Árbænum í dag. Ljósmynd/Guðmundur Karl

„Fram að því að við urðum einum leikmanni færi þá spilaðist leikurinn eins og við vildum að hann myndi þróast. Við unnum boltann hátt á vellinum og sköpuðum fullt af færum, en inn vildi boltinn ekki og niðurstaðan er mikil vonbrigði,“ sagði Guðjón Bjarni Hálfdánarson, þjálfari Selfoss, eftir að ljóst var að liðið myndi falla úr efstu deild kvenna í knattspyrnu eftir markalaust jafntefli liðsins gegn Fylki í dag. 

„Lauren [Elizabet Hughes] fékk þrjú góð færi til þess að skora. Við skjótum auk þess bæði í slá og stöng og það var í raun ótrúlegt að boltinn færi ekki í netið í þessum leik. Þessi leikur endurspeglar seinni hluta sumarsins hjá okkar. Við höfum ekki nýtt færin okkar og því fór sem fór,“ sagði Guðjón Bjarni um þróun leiksins í dag og tímabilsins í heild sinni.

Sharla Passariello, leikmanni Selfoss, var vísað af velli með rauðu spjaldi á 54. mínútu leiksins og Guðjón Bjarni fannst rauða spjaldið réttur dómur. Guðjón Bjarni hefði hins vegar viljað sjá dómara leiksins vernda leikmann sinni í aðdraganda brotsins. 

„Sharla sparkar á eftir Ruth [Þórðar Þórðardóttur] og þetta gerðist beint fyrir framan okkar. Þetta var klárlega réttur dómur, en að mínu mati hefði dómari leiksins átt að taka fastar á olnbogaskotum og öðrum brotum Ruthar og Evu [Núru Abrahamdsóttur] fyrr í leiknum,“ sagði Guðjón Bjarni um rauða spjaldið .

„Að mínu mati voru það erlendu leikmennirnir sem brugðust okkur í sumar. Við fengum ekki nógu mikið framlag frá þeim. Við hefðum átt að bregðast við því í júlí og styrkja leikmannahópinn á þeim tímapunkti. Þeir leikmenn sem voru til staðar áttu það skilið. Framtíðin er björt á Selfossi og við munum komast strax aftur upp í efstu deild,“ sagði Guðjón Bjarni um framhaldið á Selfossi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert