Fannst þetta óíþróttamannsleg framkoma

Sumarið hefur verið lærdómsríkt fyrir FH.
Sumarið hefur verið lærdómsríkt fyrir FH. mbl.is/Eggert

Orri Þórðarson, þjálfari FH, var að vonum svekktur með ósigurinn gegn Stjörnunni, 4:0, í lokaumferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í dag. Hann var hins vegar nokkuð sáttur með uppskeru sumarsins þar sem FH, nýliði í deildinni, endaði í sjötta sæti og bætti sinn besta árangur.

„Ég er þannig að ég vil vinna hvern einasta leik. En við erum með langyngsta liðið í deildinni og þegar við lögðum upp í þetta í vor þá var markmiðið að halda sæti okkar í deildinni. Að vera í sjötta sæti er bara bónus, svo þetta hefur verið dýrmæt reynsla fyrir þessar stelpur,“ sagði Orri við mbl.is. Hann stefnir hátt með FH-liðið.

„Við þurfum að halda áfram að bæta okkur og eins og ég sagði við stelpurnar eftir leikinn; við eigum að stefna á að komast á þann stað sem Stjarnan og fleiri lið eru. Það mun taka tíma og við munum halda áfram að bæta okkur,“ sagði Orri.

Við erum ósátt við þetta

FH-liðið hélt Stjörnunni í skefjum lengst af í fyrri hálfleik, en fékk á sig fyrsta markið undir lok hans. Þegar gengið var til búningsherbergja var Orra heitt í hamsi og lét leikmenn Stjörnunnar heyra það. En hvað gekk á?

„Okkur fannst þetta óíþróttamannsleg framkoma hjá Stjörnunni. Það verður samstuð þar sem leikmaður okkar meiðist og þarf að fara út af vellinum. Það er dómarakast í kjölfarið á miðjum vallarhelmingi okkar og í staðinn fyrir að setja boltann út af við miðlínuna eða eitthvað slíkt þá sparka þær boltanum upp að hornfána og upp úr því kemur síðan mark.

Við erum ennþá með leikmann úti af vellinum og mér fannst þetta óíþróttamannsleg framkoma hjá Stjörnunni. Þær þurfa ekki á því að halda enda eru þær með það gott lið,“ sagði Orri og lét þess vegna í sér heyra.

„Já, að sjálfsögðu. Mér finnst sjálfsagt að láta af því og ég gerði það hressilega. Við erum ósátt við þetta,“ sagði Orri Þórðarson, þjálfari FH, við mbl.is í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert