Stefna á titilinn á næsta ári

„Blikarnir voru ósigraðir og við ákváðum að verða fyrsta liðið til að vinna þær síðustu tvö ár,“ sagði Elísa Viðarsdóttir, varnarmaður Vals, sem átti góðan leik í 1:0-sigrinum á Breiðabliki í dag í lokaumferð Pepsi-deildarinnar.

Þrátt fyrir sigurinn endaði Valur í 3. sæti deildarinnar, með jafnmörg stig og Breiðablik en lakari markatölu. Liðin enduðu fimm stigum á eftir meisturum Stjörnunnar. Valur og Breiðablik voru einu liðin sem unnu Stjörnuna í sumar. Elísa segir það vonbrigði að hafa ekki verið með í titilbaráttunni í lokaumferðunum:

„Auðvitað. Við erum klárlega með lið til að vera á toppnum, en við erum líka með glænýtt lið frá því í fyrra og það tekur tíma að slípa sig saman. Hefðum við verið þéttari frá fyrsta degi hefði þetta getað endað aðeins öðruvísi,“ sagði Elísa, með skýrt markmið fyrir næsta tímabil:

„Ég sé ekkert annað í stöðunni en að stefna á titilinn á næsta ári.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert