Þrjúhundruð sinnum skemmtilegra en að fagna af bekknum

Berglind Hrund Jónasdóttir.
Berglind Hrund Jónasdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er ennþá að reyna að átta mig,“ sagði Berglind Hrund Jónasdóttir, markvörður nýkrýndra Íslandsmeistara Stjörnunnar, í samtali við mbl.is eftir að liðið varð meistari með 4:0-sigri á FH í lokaumferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í dag.

Sjá frétt mbl.is: Stjarn­an Íslands­meist­ari í fjórða sinn

„Þetta er alveg geggjað, mér finnst eins og tímabilið sé ekki búið. Ég er ennþá að reyna að átta mig á þessu. Þetta er sturlun,“ sagði Berglind og vissi vart í hvorn fótinn hún ætti að stíga fyrir kæti. Hún var að spila sitt fyrsta tímabil sem aðalmarkvörður liðsins eftir að hafa fengið traustið í vor með brotthvarfi Söndru Sigurðardóttur. Hvernig er að uppskera svona?

„Þetta er svona þrjúhundruð sinnum skemmtilegra en að vera á bekknum og fagna titlinum þannig. Það er geggjað að vera svona stórt hlutverk í svona geggjuðum hóp,“ sagði Berglind og sparaði ekki áherslurnar á lýsingarorðunum. Hún, eins og fleiri leikmenn Stjörnunnar, töluðu mikið um liðsheildina í hópnum.

„Liðsheildin er alveg mögnuð, flestar búnar að vera eitthvað meiddar í sumar og hafa misst af leikjum. En það skiptir engu máli hvað þú heitir, bara kemur inn og stendur þig,“ sagði Berglind og svaraði að bragði þegar blaðamaður spurði hana um fögnuðinn framundan í kvöld.

„Eins og Elli markmannsþjálfari segir: Stóri Summersby-dagurinn!“ sagði Berglind Hrund himinsæl við mbl.is, en hún er yngsti markvörðurinn sem verður Íslandsmeistari í tólf ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert