Tíu mánaða ferðalag ræðst á 90 mínútum í dag

Stjarnan eða Breiðablik verður Íslandsmeistari síðar í dag.
Stjarnan eða Breiðablik verður Íslandsmeistari síðar í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Við vorum byrjaðar að tala um það í desember að við ætluðum okkur titilinn. Það er eins gott að við vinnum þennan leik,“ sagði Berglind Hrund Jónasdóttir, hinn tvítugi markvörður Stjörnunnar, sem í dag getur orðið Íslandsmeistari í fótbolta með sigri á FH í lokaumferðinni sem hefst kl. 16.

Stjarnan hefur á síðustu fimm árum landað sínum fyrstu þremur Íslandsmeistaratitlum, árin 2011, 2013 og 2014. Í tvö síðustu skiptin fylgdist Berglind Hrund með af varamannabekknum en nú getur hún orðið einn yngsti aðalmarkvörður sem orðið hefur Íslandsmeistari, og sá yngsti síðan Guðbjörg Gunnarsdóttir landsliðsmarkvörður varð Íslandsmeistari með Val árið 2004.

„Ég er aðallega mjög spennt. Það er búið að vera svolítið skrýtið að sofna þessa vikuna. Þetta er búið að vera langt tímabil, með mörgum pásum, og ég vil bara klára leikinn sem fyrst,“ sagði Berglind.

Taugarnar ættu að vera þandar hjá markverðinum unga, þegar þetta spennandi Íslandsmót nær hápunkti í dag. Stjörnunni gæti dugað jafntefli þar sem liðið er tveimur stigum fyrir ofan Breiðablik, með 3 mörkum betri markatölu, og kannski má Stjarnan við því að tapa því Breiðablik á erfiðan leik fyrir höndum við Val, sem er í 3. sæti. FH er sýnd veiði en ekki gefin og Blikakonur geta enn gert sér vonir um að verja titilinn sinn. Það ræðst á 90 mínútum í dag, en það hefur ekki gerst hin síðari ár að Íslandsmeistarar séu ekki krýndir fyrr en í lokaumferðinni.

Fjallað er um lokaumferðina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag en mikil spenna er í titil- og fallbaráttu deildarinnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert