Bæði frábærir og hörmulegir leikir

Milos Milojevic, þjálfari Víkinga.
Milos Milojevic, þjálfari Víkinga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Milos Milojevic, þjálfari Víkings Reykjavíkur, var ánægður með sigur liðsins gegn Þróttum, 1:2, á Þróttaravellinum í lokaumferð Pepsi-deildarinnar.

„Við voru meira tilbúnir í þennan leik. Leikurinn skipti þannig séð engu máli en við mættum með því hugarfari að vinna leikinn. Við gerðum meira en nóg til þess að vinna hann. Við áttum að ganga frá leiknum í fyrri hálfleik þegar við fengum fullt af góðum færum en boltinn vildi ekki fara inn," sagði Milos.

„Það var erfitt þegar við fengum markið á okkur en sem betur fer skoruðum við strax aftur eftir frábært skot frá Ívari. Við stjórnuðum spilinu, vorum aðgangsharðari, færðum boltann vel og hlupum meira þannig að þetta var sanngjarn sigur.“

Að mati Milos einkenndist tímabilið hjá Víkingum af óstöðugleika en liðið endaði í 7. sæti með 32 stig. „Við spiluðum frábæra leiki og hörmulega leiki. Það er eitthvað sem við þurfum að bæta. Þetta er mesta stigasöfnun hjá Víkingum í 12 liða efstu deild og ég er ánægður með það. „Liðið var að sýna í 75% af leikjunum spilamennsku eins og ég vildi hafa hana. Þegar hugarfarið er í lagi og þeir spila eins og þeir æfa þá náum við stigum,“ sagði hann.

„Við þurfum að reyna að halda öllum leikmönnum en við getum ekki stöðvað leikmenn sem vilja fara erlendis og ég er ánægður ef það gerist. Síðustu fjögur ár höfum við selt 5 til 6 leikmenn sem hafa staðið sig vel í Evrópu. Það sýnir að við erum að vinna gott starf."

Milos segir að það eigi eftir að koma í ljós hvort hann haldi áfram með Víkingana á næsta tímabili. „Ef þeir eru ánægðir með mig og ég er líka ánægður þá höldum við samstarfinu áfram. Ég held að ég geti bætt þetta lið og leikmennirnir geta líka bætt sig og það á að vera það sem skiptir máli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert