„Bjart framundan í Grafarvoginum“

Ágúst Þór Gylfason og félagar unnu Breiðablik í dag.
Ágúst Þór Gylfason og félagar unnu Breiðablik í dag. Eggert Jóhannesson

„Þetta er súrsætur sigur. Það er æðislegt að vinna hérna og gera það sem við lögðum upp með. Við vorum mjög skipulagðir og klárum svo leikinn á síðasta korterinu og sýndum hvers við erum megnugir. En svo er svekkjandi að fá ekki Evrópusæti,” sagði Ágúst Þór Gylfason þjálfari Fjölnis eftir 3:0 sigur á Breiðabliki í dag. Fjölnir nær þó ekki Evrópusætinu eftir að KR vann Fylki á heimavelli.

„Evrópusætið var ekki í okkar höndum eins og við vissum en við gerðum okkar. Ef við lítum heilt yfir tímabilið þá erum við ánægðir með það. Við áttum marga frábæra leiki og erum í toppbaráttu frá byrjun þótt við höfum endað í 4. sæti. En það er hægt að byggja ofan á þetta,” bætir Ágúst við.

Aðspurður hvort reynsluleysi liðsins í toppbaráttu hafi kostað liðið Evrópusætið segir Ágúst:
„Síðustu tveir leikir gegn KR og Stjörnunni tapa þessu Evrópusæti fyrir okkur. Við vorum allan tímann inni í þeim leikjum en náum ekki að klára þá. Það er það sem skilur á milli. Við þurfum bara að læra af þessu og koma enn sterkari á næsta ári.”

„Ég er mjög glaður með að ná okkar markmiðum sem voru að enda fyrir ofan 5. sæti. En það er svekkjandi að ná ekki Evrópusæti. Það verður sennilega markmiðið okkar á næsta ári.”

„Við stimpluðum okkur inn í deildina í fyrra sem eitt af betri liðum deildarinnar. Á þessu ári lendum við í því 4. og erum með frábæra markatölu og erum markahæsta liðið í deildinni. Við erum skemmtilegir og það er gaman að horfa á okkur og gaman að enda þetta á góðum sigri.”
Spurður um framhaldið hjá sjálfum sér og Fjölni segir Ágúst:

„Við munum setjast niður eftir helgi og sjá hvort við náum ekki saman um áframhaldið. Ekkert komið á hreint varðandi leikmannamál. Við klárum þetta mót bara og svo fer ég í þeta. Fyrst fær maður samning áður en maður fer að spá í leikmannamálum. Það er bjart framundan í Grafarvoginum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert