Ekki orðinn dragbítur á liðið

Atli Viðar Björnsson hefur leikið með FH í 15 ár.
Atli Viðar Björnsson hefur leikið með FH í 15 ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Samningurinn minn er að renna út þannig að ég get ekki svarað þessu öðruvísi en að mig langar til að halda áfram í fótbolta. Væntanlega verður þetta rætt bara á næstu dögum,“ sagði markahrókurinn Atli Viðar Björnsson þegar blaðamaður spurði hvort að Dalvíkingurinn yrði áfram með FH á næsta tímabili.  Íslandsmeistararnir gerðu 1:1 jafntefli gegn ÍBV í lokaumferð Pepsi-deildar karla.

Atli Viðar er 36 ára gamall og hefur verið í liði FH í öll átta skiptin sem iðið hefur orðið meistari. Hann viðurkennir að FH standi honum næst, þegar kemur að því að semja um framhaldið á hans glæsta ferli.

„Mér líður vel í skrokknum og finnst ég ekki vera orðinn dragbítur á liðið þannig að ég ætla rétt að vona að ég geti haldið tempóinu. Á meðan svo er, þá langar mig að halda áfram.“

Atli Viðar hefði getað nælt í bronsskóinn með tveimur mörkum í dag en Atli lauk keppni í Pepsi-deildinni með sjö mörk þetta tímabilið.

„Ég var svo sem ekkert að velta því fyrir mér. Þetta var bara frekar lokaður og leiðinlegur leikur og aldrei í spilunum að þetta yrði einhver markasúpa. Við fögnum þó að sjálfsögðu þessum titli í kvöld, þó að þessi leikur hafi ekki verið til útflutnings,“ sagði Atli Viðar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert