Við kláruðum þetta með stæl

Rúnar Páll Sigmundsson.
Rúnar Páll Sigmundsson. mbl.is/Styrmir Kári

„Tilfinningin er mjög góð. Það er frábært hjá okkur að klára síðustu fjóra leikina og fá tólf stig úr þeim,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, við mbl.is, eftir 4:1-sigur Stjörnunnar á Víkingi Ólafsvík í lokaumferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu. Stjarnan hafnaði í öðru sæti og tryggði sér sæti í Evrópukeppni.

„Við lögðum það þannig upp að síðustu fjórir leikirnir væru úrslitaleikir og við máttum ekkert misstíga okkur. Við kláruðum það með stæl og endum þetta í öðru sæti sem er næstbesti árangur Stjörnunnar,“ bætti Rúnar við en Stjarnan varð Íslandsmeistari fyrir tveimur árum og er það besti árangur félagsins.

Þjálfaranum fannst leikurinn í dag ágætur en sigur Garðbæinga var nokkuð öruggur. „Við spiluðum ágætlega í þessum leik. 1:0-staða er oft óþægileg staða og maður er aldri öruggur fyrr en maður setur eitt mark í viðbót. Við náðum að sigla þessu í höfn og Veigar kom sterkur inn í lokin,“ sagði Rúnar en Veigar Páll Gunnarsson kom inn á sem varamaður um miðjan fyrri hálfleik og skoraði tvö mörk. Hann er samningslaus eftir tímabilið en Rúnar sagði að Stjörnumenn myndu ræða við Veigar á næstu dögum:

„Við setjumst niður með Veigari og ræðum málin. Auðvitað vill Veigar spila meira og við gerum okkur grein fyrir því. Hann á alveg einhver ár eftir myndi ég halda.“

Rúnar býst við því að flestir í leikmannahópnum leiki áfram með Stjörnunni á næsta tímabili. „Flestallir eru á leikmannasamning hér og við förum í það á næstu vikum að ræða við leikmenn sem eru með lausa samninga og ganga frá þeim. Auk þess ætlum við að sjá hvar við getum styrkt hópinn.“

Aðspurður um eigin framtíð var svarið einfalt: „Ég verð hérna allavega næstu þrjú árin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert