„Hef mjög góða tilfinningu“

Rúnar Alex Rúnarsson á Laugardalsvellinum í dag.
Rúnar Alex Rúnarsson á Laugardalsvellinum í dag. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Það eru allir mjög spenntir fyrir þessum leik og við erum fullir tilhlökkunar,“ sagði Rúnar Alex Rúnarsson, markvörður U21 árs landsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is fyrir æfingu liðsins á Laugardalvellinum í dag.

Strákarnir í U21 árs landsliðinu taka á móti Úkraínumönnum í lokaumferð riðlakeppni Evrópumótsins á Laugardalsvellinum á morgun og með sigri tryggir íslenska liðið sér sæti í úrslitakeppninni sem fram fer í Póllandi næsta sumar.

„Það er búið að vera gott partí á Laugardalsvellinum á síðustu dögum og við ætlum að halda því partíi áfram á morgun. Hver einasti leikur í þessari riðlakeppni hefur verið erfiður og það sama verður uppi á teningnum á morgun. Við förum í þennan leik með það að markmiði að halda hreinu og pota inn einu eða tveimur mörkum á þá. Með því tryggjum við okkur inn á EM sem er markmið okkar allra.

Við höfum spilað vel sem eitt lið í þessari undankeppni og ég hef mjög góða tilfinningu fyrir leiknum,“ sagði Rúnar Alex sem hefur átt fast sæti í liði danska úrvalsdeildarliðsins Nordsjælland á leiktíðinni.

„Ég er mjög sáttur við lífið og tilveruna í Danmörku. Ég hef fengið að spila mikið og hef verið mjög sáttur við frammistöðu mína. Ég er fullur sjálfstrausts og það er alveg á hreinu að ég ætla að spila á EM í Póllandi næsta sumar.“

Rúnar Alex sýndi mjög góð tilþrif í sigurleiknum á móti Skotum í síðustu viku þar sem hann gerði sér lítið fyrir og varði vítaspyrnu.

Rúnar Alex Rúnarsson.
Rúnar Alex Rúnarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert