„Hlakka til að koma heim og fá mér að borða“

Fanndís Friðriksdóttir fagnar marki sínu gegn Kína.
Fanndís Friðriksdóttir fagnar marki sínu gegn Kína. Ljósmynd/KSÍ

„Ég hef ekki verið nógu dugleg að skora með landsliðinu en það er gott að geta endað þetta ár á marki og sigri,“ sagði Fanndís Friðriksdóttir þegar mbl.is sló á þráðinn til Kína eftir 1:0-sigur Íslands á Úsbekistan í lokaleik sínum á fjögurra þjóða móti sem haldið er þar í landi.

Sjá frétt mbl.is: Fanndís hetja Íslands gegn Úsbekistan

Fanndís skoraði tvö af þremur mörkum Íslands á mótinu eftir að hafa einnig skorað gegn Kína í fyrsta leiknum. Ísland hafði yfirburði gegn Úsbekistan í dag en lið Úsbeka var hins vegar duglegt að tefja.

„Já, maður var orðin vel þreytt á þessu. Þær létu sig detta í hvert einasta skipti sem þær gátu og tóku allavega mínútu í hvert skipti sem boltinn fór út af. Maður reynir að láta svona ekki fara í taugarnar á sér en það gerir það bara,“ sagði Fanndís.

Gríðarlegur raki hefur verið í leikjunum til þessa en Fanndís segir að aðstæðurnar í dag séu með því besta miðað við leikina gegn Kína og Danmörku fyrr á þessu móti.

Fanndís Friðriksdóttir í baráttu í leiknum við Kína.
Fanndís Friðriksdóttir í baráttu í leiknum við Kína. Ljósmynd/Twitter

Betri aðstæður en í hinum leikjunum

„Það var mun léttara yfir núna, og jafnvel smá gola. En aðstæðurnar voru betri en í hinum tveimur leikjunum og ekki eins heitt,“ sagði Fanndís.

Ísland prófaði nýja hluti á þessu móti, meðal annars með því að spila leikkerfið 3-5-2 á köflum. Fanndís skoraði tvö mörk sem áður segir, en hvernig er það að vera framherji í þessu kerfi sem Ísland hefur aldrei spilað áður?

„Það er mjög gaman, sérstaklega því mér finnst gaman að hlaupa á bak við vörnina. Það er kannski frekar minn styrkleiki en að fá boltann í fætur. Það er því bara skemmtilegt og gaman að prófa eitthvað nýtt,“ sagði Fanndís, sem telur að þessi ferð til Kína hafi mjög góð áhrif á íslenska liðið.

Íslenska kvennalandsliðið fagnar marki í Kína.
Íslenska kvennalandsliðið fagnar marki í Kína. Ljósmynd/KSÍ

Hrikalega skemmtilegt ævintýri

„Það er gaman að koma saman og prófa eitthvað sem er svona algjörlega nýtt fyrir öllum. Svo er þetta einmitt það sem við þurftum núna; æfingamót til þess að prófa nýtt kerfi og gefa mörgum leikmönnum tækifæri. Þetta er búið að vera ótrúlega skemmtilegt og gott í alla staði. Nú tekur maður sér smá pásu en svo byrjum við bara á fullu enda ætlum við að vera í okkar allra besta standi þegar kemur að EM. En maður þarf líka á hvíldinni að halda,“ sagði Fanndís.

Íslenska liðið heldur heim á ný á morgun og það er að heyra að tilhlökkunin sé mikil.

„Já, guði sé lof. Það verður hrikalega gott að komast heim. Þetta er búið að vera hrikalega skemmtilegt ævintýri en ég hlakka svo til að koma heim og fá mér að borða. Það verður eitthvað annað en hrísgrjón. Þeir eru góðir í því hérna svo maður hefur borðað hrísgrjón hérna nánast í tíu daga,“ sagði Fanndís Friðriksdóttir létt í bragði við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert