Lágu í grasinu við minnstu snertingu

Dagný Brynjarsdóttir í leiknum við Dani.
Dagný Brynjarsdóttir í leiknum við Dani. Ljósmynd/KSÍ

„Við stefndum á sigur í dag og mér finnst mikilvægt að vinna síðasta leik ársins,“ sagði landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir í viðtali við KSÍ eftir 1:0-sigur Íslands á Úsbekistan í lokaleik sínum á alþjóðlegu móti í Kína í dag.

 Sjá frétt mbl.is: Fanndís hetja Íslands gegn Úsbekistan

„Við vorum með yfirburði allan tímann, héldum boltanum og sköpuðum okkur færi en við hefðum þurft að vera betri í kringum vítateiginn. Við fengum mikið af hálffærum sem við náðum ekki alveg að nýta, en það er bara eitthvað sem við getum unnið í,“ sagði Dagný. Lið Úsbeka var mikið í að tefja, sem fór svolítið í taugarnar á íslenska liðinu.

„Þetta er alveg frekar pirrandi; þær voru í jörðinni allan tímann og allt tók rosalega mikinn tíma hjá þeim. Svo lágu þær í grasinu við minnstu snertingu, en það er mikilvægt að halda einbeitingu gegn svona andstæðingi þótt það geti oft verið erfitt. Mér fannst við gera það vel í dag,“ sagði Dagný.

Ísland gerði jafntefli við Kína og tapaði fyrir Danmörku áður en kom að leiknum í dag. En hvað finnst Dagnýju um þessa ferð til Kína?

„Þetta var bara fínt, auðvitað hefðum við viljað vinna Dani. En við vorum að prófa nýtt leikkerfi og allir fengu stórt hlutverk. Við vorum saman hérna í tíu daga, sem er mikilvægt fyrir hópinn. Þetta hefur því verið góð reynsla,“ sagði Dagný Brynjarsdóttir við KSÍ.

Sjá frétt mbl.is: „Hlakka til að koma heim og fá mér að borða“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert