Fanndís hetja Íslands gegn Úsbekistan

Íslenska liðið fagnar marki Fanndísar Friðriksdóttur í fyrsta leik mótsins …
Íslenska liðið fagnar marki Fanndísar Friðriksdóttur í fyrsta leik mótsins gegn Kína. Ljósmynd/KSÍ

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu sigraði Úsbekistan, 1:0, í lokaleik sínum á alþjóðlegu móti í Yongchuan í Chongqing-héraði í Kína. Ísland hafði áður gert jafntefli við Kína og tapað fyrir Danmörku.

Markalaust var eftir fyrri hálfleikinn þrátt fyrir þunga sókn Íslands, en í leikhléi breytti Freyr Alexandersson um leikaðferð og skipti í 3-5-2 skipulagið sem spilað var gegn Kínverjum. Á 64. mínútu var svo ísinn loks brotinn þegar Fanndís Friðriksdóttir kom Íslandi yfir með skoti utan teigs, en hún var einnig á skotskónum gegn Kínverjum.

Mark Fanndísar reyndist eina mark leiksins og því fór Ísland með 1:0 sigur af hólmi. Liðið hlaut því fjögur stig á mótinu eftir jafntefli við Kína á fimmtudag, 2:2, en því fylgdi svo 1:0 tap fyrir Dönum.

Lokaleikur mótsins fer fram síðar í dag þegar Kína og Danmörk mætast. Danir hafa unnið báða leiki sína en Kínverjar unnu Úsbeka eftir jafnteflið við Ísland.

Þetta var fyrsti landsleikur Íslands og Úsbekistan í knattspyrnu í nokkrum aldursflokki. Lið Úsbeka er í 42. sæti á heimslista FIFA en Ísland er í 16. sæti.

90. Leik lokið. Ísland lýkur keppni í Kína með sigri.

80. Tíu mínútur eftir og Ísland enn yfir. Fyrsti sigurinn á þessu móti nálgast.

64. Mark! Staðan er 0:1. Ísland kemst yfir! Fanndís Friðriksdóttir skorar með skoti utan teigs. Hennar annað mark á þessu móti eftir að hafa komið Íslandi yfir gegn Kína í fyrsta leiknum.

55. Ísland sótti nær látlaust í fyrri hálfleik en uppskar ekki mark. Spurning hvað gerist með breytingu á leikskipulaginu.

50. Ísland gerði tvær breytingar í hálfleik. Glódís Perla Viggósdóttir og Elísa Viðarsdóttir komu inn fyrir þær Svövu Rós Guðmundsdóttur og Önnu Björk Kristjánsdóttur. Leikaðferðin núna er 3-5-2 eins og liðið spilaði gegn Kína á fimmtudag.

46. Síðari hálfleikur er hafinn.

45. Hálfleikur. Og enn markalaust eftir því sem næst verður komist.

32. Enn markalaust eftir því sem næst verður komist. Það er minnsta upplýsingagjöfin úr þessum leik miðað við fyrri leikina tvo gegn Kína og Danmörku.

15. Staðan er markalaus eftir fyrsta stundarfjórðunginn. Aðrar upplýsingar en það eru hins vegar enn af skornum skammti.

1. Leikurinn er hafinn. Við munum reyna að fylgjast með gangi mála eins og hægt er. Leikurinn er ekki sýndur í sjónvarpi ytra og upplýsingar eru af skornum skammti vegna netleysis, en blaðamaður mbl.is reynir allt sem hann getur að leita uppi upplýsingar.

0. Sjö breytingar eru á liði Íslands frá tapinu gegn Danmörku, rétt eins og eftir fyrsta leikinn gegn Kína. Berglind Hrund Jónasdóttir stendur í markinu í fyrsta sinn fyrir Ísland.

Lið Íslands: Berglind Hrund Jónasdóttir - Hólmfríður Magnúsdóttir, Anna Björk Kristjánsdóttir, Sif Atladóttir, Rakel Hönnudóttir - Fanndís Friðriksdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Dóra María Lárusdóttir, Dagný Brynjarsdóttir (fyrirliði), Svava Rós Guðmundsdóttir - Berglind Björg Þorvaldsdóttir.
Varamenn: Guðbjörg Gunnarsdóttir (m), Sandra Sigurðardóttir (m), Elísa Viðarsdóttir, Ásgerður S. Baldursdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir, Margrét Lára Viðarsdóttir, Katrín Ómarsdóttir, Katrín Ásbjörnsdóttir, Sandra María Jessen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert