Hef bætt mig mikið

Haraldur Björnsson á landsliðsæfingu.
Haraldur Björnsson á landsliðsæfingu. mbl.is/Golli

Markvörðurinn Haraldur Björnsson mun spila með Stjörnunni í Garðabæ næstu þrjú árin í það minnsta, en hann samdi við Garðabæjarfélagið í gær og tekur þriggja ára samningur hans við liðið gildi 1. janúar.

Haraldur mun klára tímabilið með Lilleström í Noregi, en Rúnar Kristinsson, þáverandi þjálfari liðsins, fékk hann til liðs við sig frá sænska liðinu Östersunds í ágúst og hefur Haraldur spilað einn leik með Lilleström í deildinni frá því hann kom til þess.

Finn fyrir miklum metnaði

„Eftir að hafa rætt við Stjörnumenn leist mér mjög vel á það sem þeir höfðu fram að færa. Ég finn fyrir miklum metnaði hjá Stjörnunni og heyri að félagið vill gera betur en það hefur gert. Stjarnan er einn af stærri klúbbunum á Íslandi og ég sé ekki annað fyrir mér en að hún hafi alla burði til að gera það gott á næstu árum,“ sagði Haraldur við Morgunblaðið í gær.

Haraldur, sem er 27 ára gamall, hélt út í atvinnumennsku eftir tímabilið með Valsmönnum 2012 og hefur spilað með norsku liðunum Sarpsborg, Fredrikstad, Strömmen og nú Lilleström og sænska liðinu Östersunds. Hann hefur spilað með öllum yngri landsliðum Íslands og lék sinn fyrsta A-landsleik í janúar á þessu ári þegar hann lék síðari hálfleikinn í 1:0 sigri á móti Finnum í Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í janúar.

„Ég ákveð að taka þetta skref að koma heim með það fyrir augum að fá að spila. Það er auðvitað samkeppni hjá Stjörnunni eins og hjá öðrum liðum og ég er alveg óhræddur við hana,“ sagði Haraldur. Fyrir hjá Stjörnunni er Eyjamaðurinn Guðjón Orri Sigurjónsson, sem leysti Jamaíkamanninn Duwayne Kerr af hólmi undir lok tímabilsins og átti mjög góða innkomu í mark Garðabæjarliðsins.

Nánar er rætt við Harald í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert