Ísland í þriðja styrkleikaflokki

Hallbera Guðný Gísladóttir, Margrét Lára Viðarsdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir og …
Hallbera Guðný Gísladóttir, Margrét Lára Viðarsdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir og Hólmfríður Magnúsdóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu verður í þriðja styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla fyrir lokakeppni EM sem fram fer í Hollandi næsta sumar.

Dregið verður í Rotterdam hinn 8. nóvember næstkomandi. Íslensku konurnar munu ekki lenda í riðli með þeim dönsku því í styrkleikaflokki Íslands eru einnig Danmörk, Skotland og Ítalía. 

Gestgjöfunum frá Hollandi hefur þegar verið raðað í A-riðil lokakeppninnar sem lið úr fyrsta styrkleikaflokki en hinar þjóðirnar verða dregnar upp úr skálinni hinn 8. nóvember. Í fyrsta styrkleikaflokki eru einnig ríkjandi meistarar Þjóðverja ásamt Englandi og Frakklandi. 

Í öðrum styrkleikaflokki er að finna grannaþjóðir okkar Noreg og Svíþjóð ásamt Spáni og Sviss.

Þá kemur þriðji styrkleikaflokkur okkar Íslendinga en í þeim fjórða eru Austurríki, Belgía, Rússland og Portúgal.  

Á EM í Finnlandi 2009 var Ísland í riðli með, Frökkum, Norðmönnum og Þjóðverjum. Á EM í Svíþjóð 2013 var Ísland í riðli með Norðmönnum, Þjóðverjum og Hollendingum. Ísland mætti Svíþjóð í framhaldinu í 8-liða úrslitum.  

Sá möguleiki er því fyrir hendi að Ísland verði með Þýskalandi og/eða Noregi í riðli í þriðja skiptið í röð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert