Fylkir styrkir sig

Frá undirskriftinni hjá Fylki í dag.
Frá undirskriftinni hjá Fylki í dag. Ljósmynd/Fylkir

Fjórir ungir og efnilegir leikmenn gengu í dag til liðs við kvennalið Fylkis í knattspyrnu. Á sama tíma framlengdi ungur og efnilegur markvörður samning sinn við félagið. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

Berglind Rós Ágústsdóttir sem er fædd 1995 semur við Fylki til tveggja ára en hún kemur frá Val. Þrátt fyrir ungan aldur þá hefur Berglind spilað 45 leiki með meistaraflokki og skorað í þeim 1 mark, flesta með liði Vals. Berglind á að baki 14 leiki með yngri landsliðum og skoraði í þeim 1 mark.

Tinna Björk Birgisdóttir kemur til Fylkis frá Aftureldingu en hún er uppalin hjá Breiðabliki. Hún semur við Fylki til tveggja ára en hún hefur spilað 45 leiki í meistaraflokki og skorað í þeim 3 mörk. Tinna sem er fædd 1994 spilaði 3 leiki með U17 ára landsliðinu.

Ísold Kristín Rúnarsdóttir er fædd 1999 og kemur frá Val þar sem hún er uppalin. Hún hefur spilað 13 leiki í meistaraflokki og skorað í þeim 3 mörk ásamt því að hafa spilað 17 leiki með yngri landsliðum og skorað í þeim 1 mark. Ísold semur við Fylki til tveggja ára.

Stella Þóra Jóhannesdóttir semur við Fylki til tveggja ára en hún kemur frá Fjölni en þar spilaði hún 48 leiki í meistaraflokki þrátt fyrir ungan aldur en hún er fædd 1998. Í þessum leikjum skoraði hún 14 mörk. Stella spilaði 4 leiki með U17 ára landsliðinu.

Brigita Morkute er markmaður, fædd 2001 er uppalin í Fylki. Hún hefur æft með meistaraflokki og eins með U17 ára landsliði Íslands. Brigita semur við Fylki til þriggja ára.

„Þetta er frábær dagur fyrir okkur í Fylki. Það er markmið okkar að stækka hópinn, þá helst með ungum og efnilegum leikmönnum. Umhverfið og umgjörð er hér til staðar og hér geta leikmenn bætt sig, fengið traust og þjónustu sem eflir þá. Við erum að vinna í að semja við fleiri leikmenn,“ segir Halldór Steinsson formaður meistaraflokks ráðs kvenna hjá Fylki

„Ég er rosalega ánægður með þessa leikmenn sem eru að koma til okkar. Við erum á fullri ferð að vinna í að efla og stækka leikmannahópinn. Vonandi náum við að tilkynna fleiri góðar fréttir á næstu dögum Við viljum bjóða upp á eins góða þjónustu fyrir leikmenn og hægt er, hér er allt til staðar,“ segir Jón Aðalsteinn Kristjánsson þjálfari kvennaliðs Fylkis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert