Telma frá Blikum til Stjörnunnar

Telma Hjaltalín Þrastardóttir skorar í leik með Blikum.
Telma Hjaltalín Þrastardóttir skorar í leik með Blikum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Telma Hjaltalín Þrastardóttir hefur skrifað undir þriggja ára samning við Íslandsmeistara Stjörnunnar í knattspyrnu, en hún kemur frá bikarmeisturum Breiðabliks. Þetta kemur fram á heimasíðu Stjörnunnar.

Telma lék um tíma með Stabæk í Noregi en hún er uppalin í Aftureldingu. Hún spilaði eitt sumar með Val en hefur síðustu þrjú árin spilað með Kópavogsliðinu. Hún var Íslandsmeistari með liðinu í fyrra, en hefur nú ákveðið að ganga til liðs við Stjörnuna.

Telma missti af öllu síðasta tímabili vegna meiðsla, en hún sleit krossband í hné í vor. Sumarið þar á undan skoraði hún þrettán mörk í sautján leikjum með Blikum þegar liðið varð Íslandsmeistari. Hún hefur alls skorað 42 mörk í efstu deild hér á landi og á þar að auki að baki 49 landsleiki með yngri landsliðum Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert