Ísland komið áfram í milliriðil

Íslenska U17 ára landslið kvenna.
Íslenska U17 ára landslið kvenna. Ljósmynd/KSÍ

Íslenska U17 ára landslið kvenna í knattspyrnu er komið áfram í milliriðil Evrópumótsins eftir 4:0 sigur á Færeyjum í undankeppni EM í dag. Allur undanriðillinn er leikinn á Írlandi.

Það var Sólveig Larsen Jóhannesdóttir sem opnaði markareikninginn hjá Íslandi þegar hún skoraði á 34. mínútu en færeyska liðið varðist vel þó íslenska liðið hafði sótt töluvert fram að fyrsta markinu.  Þannig var staðan í leikhléi en eftir aðeins tveggja mínútna leik í síðari hálfleik skoraði Hlín Eiríksdóttir og Alexandra Jóhannsdóttir bætti við þriðja markinu sex mínútum síðar.  Síðasta markið kom svo í uppbótartímar þegar Hlín bætti við öðru marki sínu og fjórða marki Íslands og þar við sat.

Ísland er með fullt hús eftir tvo leiki af þremur og er komið áfram í milliriðil. Ísland vann Hvíta-Rússland 4:0 í fyrsta leik, en Írar hafa sömuleiðis unnið báða leiki sína. Báðar þjóðirnar eru með sex stig og mætast í síðasta leik riðilsins, en tvö efstu liðin komast áfram og því eru bæði Ísland og Írland þegar örugg með sæti í milliriðli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert