Búum á besta hóteli sem ég hef séð

Kjartan Henry Finnbogason fagnar marki sínu gegn Kínverjum í gær.
Kjartan Henry Finnbogason fagnar marki sínu gegn Kínverjum í gær. AFP

Kjartan Henry Finnbogason er afar ánægður með að hafa skorað sitt fyrsta mark fyrir íslenska landsliðið í knattspyrnu en í viðtali á vef danska félagsins Horsens lýsir hann yfir mikilli ánægju með Kínaför íslenska landsliðsins og allar aðstæður þar austur frá.

Kjartan kom inná sem varamaður gegn Kínverjum í gær, skoraði fyrra markið og lagði upp það síðara fyrir annan varamann, Aron Sigurðarson, í 2:0 sigri Íslands. Þetta var hans fimmti A-landsleikur.

„Þetta var ekki eitthvað stórkostlega fallegt mark en það gildir og það var stórkostlegt að ná að skora mitt fyrsta landsliðsmark. Ég fékk þau fyrirmæli að fara inná og leggja hart að mér, eins og ég er vanur, og það er að sjálfsögðu alltaf plús að skora. Þetta var leikur sem hentaði mér, ég náði að halda boltanum vel og leggja mig vel fram fyrir liðið," segir Kjartan við vef Horsens.

„Þegar við komum tíl Kína var tekið á móti okkur af nokkur hundruðum Kínverja með íslenska fánann. Við búum á besta hóteli sem ég hef séð, hérna eru stórkostlegar aðstæður og við erum meðhöndlaðir eins og stjörnur. Á hæðinni okkar eru öryggisverðir sem gæta okkar allan sólarhringinn og við finnum vel fyrir því að Kínverjar hafa mikinn áhuga á fótbolta. Þetta er frábær upplifun," segir Kjartan Henry Finnbogason sem spilar með Horsens í dönsku úrvalsdeildinni og er næst markahæsti leikmaður liðsins á tímabilinu með 6 mörk í 20 leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert