Garðar Jóhannsson kominn til KR

Garðar Jóhannsson í leik með Fylki.
Garðar Jóhannsson í leik með Fylki. Árni Sæberg

Garðar Jóhannsson hefur gengið til liðs við KR og mun hann leika með liðinu í Pepsi-deildinni í knattspyrnu næsta sumar. 

Framherjinn lék með Fylki á síðustu leiktíð en Árbæingar féllu úr deild þeirra bestu eftir tap gegn KR í lokaumferðinni og ákvað Garðar þá að segja skilið við félagið og ganga í raðir KFG í 3. deild. 

Nú hefur hann hins vegar skrifað undir samning við KR og kann reynsluboltinn greinilega vel við sig í Vesturbænum. Þar lék hann frá 2003 til 2006, undir stjórn núverandi þjálfara KR, Willum Þórs Þórssonar. 

„Ég þekki Garðar mjög vel eftir að hafa þjálfað hann. Hann stóð sig vel í fyrrasumar og hann á nóg eftir," sagði Willum í samtali við Fótbolta.net í dag. 

Garðar lék á sínum tíma átta landsleiki þar sem hann skoraði tvö mörk, ásamt því að hann var atvinnumaður erlendis frá 2006-2010. Fyrst með Fredrikstad í Noregi, næst með Hansa Rostock í Þýskalandi og loks Strømsgodset sem einnig er í Noregi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert