Daði Bergsson heim í Þrótt

Daði Bergsson er kominn aftur í Þrótt.
Daði Bergsson er kominn aftur í Þrótt. Ljósmynd/Þróttur

Daði Bergsson hefur undirritað tveggja ára samning við uppeldisfélag sitt, Knattspyrnufélagið Þrótt. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu félagsins.

Daði er 21 árs og á að baki 61 leik í meistaraflokki þar sem hann hefur spilað frá sextán ára aldri. Fyrstu tvö tímabilin voru hjá Þrótti, en síðan hleypti hann heimdraganum og samdi við NEC í Hollandi og var þar í tvö ár. Að þeim tíma loknum fór hann til Vals og var þar í tvö ár, þar af hálft ár á lánssamningi við Leikni Reykjavík. Daði á að baki 29 landsleiki með yngri landsliðum Íslands.

„Það er hrikalega gaman að vera kominn aftur heim í Þrótt og ég hlakka til að taka slaginn með nýjum og gömlum félögum. Ég er spenntur fyrir umgjörðinni í Laugardal, líst vel á stefnu klúbbsins og er fullur eftirvæntingar að taka þátt í þessu verkefni.

Leikmannahópurinn er traustur og virkilega skemmtilegt að sjá hversu margir uppaldir Þróttarar ætla að einhenda sér í Inkasso-ástríðuna næsta sumar. Það er ekkert leyndarmál að við stefnum beint aftur upp, enda með alvöruhóp, algjöran toppþjálfara og bakland sem er engu líkt. Það toppar enginn Köttara í ham — þetta verður frábært sumar. Hérna er hjartað í Reykjavík,“ segir Daði Bergsson á heimasíðu Þróttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert