Þór/KA saman í sumar – Farið í hart yfir peningamálum?

Þór/KA ætlaði að gefa búninga sína upp á bátinn fyrir …
Þór/KA ætlaði að gefa búninga sína upp á bátinn fyrir áframhaldandi samstarf. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Ákveðið var á fundi leikmannaráðs Þórs/KA í kvöld að spila undir sameiginlegum merkjum félaganna á Íslandsmótinu í knattspyrnu sumar. Frekari endurskipulagning mun svo eiga sér stað í haust. Þetta staðfesti Nói Björnsson, formaður leikmannaráðs Þórs/KA, við mbl.is í kvöld.

Sjá frétt mbl.is: KA slít­ur sam­starfi við Þór

Eins og fjallað hefur verið ítarlega um hér á mbl.is ákvað KA að endurnýja ekki samning um samstarf félaganna í kvennaflokki í knattspyrnu og handknattleik. Leikmannaráð Þórs/KA í knattspyrnu fundaði í kvöld og segir Nói að samhugur hafi verið um að halda ótrauð áfram, þó sé ljóst að endurskipulagning sé í vændum í haust.

Þá hefur Þór/KA einnig ákveðið að senda tvö lið í 2. flokki til keppni á Íslandsmótinu í sumar vegna fjölda iðkenda.

„Við höldum okkar striki í því og öllu sem við höfðum ákveðið, enda búin að fjárfesta bæði í leikmönnum og öflugri þjálfun. Að sjálfsögðu þurfum við að skoða okkar mál með haustinu, það liggur alveg fyrir,“ sagði Nói við mbl.is í kvöld.

Þór/KA varð Íslandsmeistari 2012.
Þór/KA varð Íslandsmeistari 2012. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Búið að ákveða að spila í hlutlausum búningum

Hann ítrekar að yfirlýsing KA hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti fyrir forsvarsmenn Þórs/KA. Nói sat fund forsvarsmanna KA og Þórs um endurnýjun samningsins í nóvember og þar var meðal annars ákveðið að leikið yrði í hlutlausum búningum í sumar.

„Það var fyrsta mál á dagskrá þegar við hittumst á fundi í nóvember, og raunar grundvöllur fyrir framhaldi hvort við værum tilbúin að fara í hlutlausan búning. Það stóð ekki á svari frá okkur, við vildum ekki láta það trufla samskiptin svo það var bara samþykkt.

Sjá frétt mbl.is: Hallar á KA/Þór í samstarfinu – „Erum með KA-hjarta“

Síðustu ár hefur Þór/KA spilað í Þórslitunum og engin breyting verður þar á nú, eftir tíðindi gærdagsins.

„Við vorum búin að samþykkja það og kvennaráðið var að skoða valkosti. En það er engin ástæða til þess að skipta nýjum búningum frá því í fyrra, ekki fyrst að svona staða er uppi. Þetta kom flatt upp á alla, segi ég. Þetta er kúvending sem við áttum ekki von á.“

Sjá frétt mbl.is: Undrast vinnubrögð KA – „Kom eins og sleggja“

Ester Einarsdóttir og Nói Björnsson, formaður leikmannaráðs Þórs/KA.
Ester Einarsdóttir og Nói Björnsson, formaður leikmannaráðs Þórs/KA. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Útilokar ekki að reyna að sækja peningana

Eins og Morg­un­blaðið greindi frá fyr­ir skemmstu var uppi ágrein­ing­ur á milli KA og stjórn­ar Þórs/​KA um ráðstöf­un á fjár­magni frá KSÍ, sem er til komið vegna ár­ang­urs Íslands á EM í Frakklandi. Um er að ræða rétt rúm­lega tvær millj­ón­ir króna sem Þór/​​KA tel­ur að KA eigi að láta renna í rekst­ur liðsins. KA var út­hlutað rúm­lega 11 millj­ón­um og Þór tæp­lega 13 millj­ón­um. Rétt er að árétta þessar upphæðir eftir misvísandi fréttaflutning síðustu daga.

Sjá frétt mbl.is: Ágrein­ing­ur á Ak­ur­eyri í kjöl­far fjár­út­hlut­un­ar

Sam­kvæmt út­reikn­ingi ætti Þór/​KA að fá 4 millj­ón­ir, eða tvær frá hvoru fé­lagi, en KA hefur gefið það út að félagið ætli að nota fjármagnið til uppbyggingar á svæði sínu og að það sé í samráði við KSÍ.

Sjá frétt mbl.is: Erfið ákvörðun fyrir alla

„Það er okkar skoðun að þetta EM-peningamál er allt annað mál en þetta samstarf. Ég veit ekki hvort menn eru að blanda þessu saman þar sem ég hef engar upplýsingar. Við horfum með gremju til þess að þetta skuli enn standa svona og ég ætla ekkert að útiloka að við gerum einhverjar tilraunir til þess að sækja þá,“ sagði Nói og undirstrikaði það þegar blaðamaður endurtók fullyrðinguna.

Þór/KA fagnar marki í sumar.
Þór/KA fagnar marki í sumar. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Vonar að umræðan hafi ekki neikvæð áhrif

Mikil umræða hefur myndast á Akureyri eftir að yfirlýsing KA var send út og meðal annars kvörtuðu leikmenn Þórs/KA yfir því að þeim hafi verið alveg haldið úti í kuldanum. Nói segir að sjálfur hafi hann lesið um málið í fjölmiðlum og því ekki getað breytt því. Rætt var við liðið í kvöld.

Meðal annars hafa leikmenn liðsins lýst því opinberlega yfir að þeir muni snúa baki við KA.  

Sjá frétt mbl.is: Vill ekki þjálfa leng­ur hjá KA - „Særði mig mikið“

Gæti það haft neikvæð áhrif á liðið og skapað jafnvel undirliggjandi gremju?

„Nei, ég á ekki von á því. Þetta er svo samstæður hópur og öflugur og ég vona að leikmenn haldi sínu striki. svo tökum við umræðuna á haustdögum um næstu skref. Við höfum þann kost að bjóða þeim leikmönnum sem eru skráðir í KA að ganga yfir til okkar. Sumar hafa ýjað að því að gera það strax,“ sagði Nói.

Sjá frétt mbl.is: „Ekki viss um að ég verði KA stelpa áfram“

Kvennalið KA mun þurfa að hefja keppni í 2. deild, en Þór heldur sæti Þórs/KA í efstu deild.

„Við erum með fullt af landsliðsstelpum hérna og ég tel nú að þær vilji spila þar sem mest er eftir þeim tekið og þær hafi möguleika á að halda sínum landsliðssætum. Auðvitað taka einhverjar átt í þessu verkefni hjá þeim [KA] ef af verður, en því miður þykir mér þetta mál ekki nógu vel ígrundað.“

Nói segir í samtali við mbl.is að nú eigi rykið eftir að setjast og síðar muni koma yfirlýsing frá Þór/KA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert