Leiknir fær pólskan markvörð

Leiknir leikur áfram í 1. deildinni á komandi tímabili.
Leiknir leikur áfram í 1. deildinni á komandi tímabili. mbl.is/Golli

Fyrstudeildarlið Leiknis á Fáskrúðsfirði hefur samið við pólska markvörðinn Robert Winogrodzki um að leika með félaginu á komandi keppnistímabili í knattspyrnunni.

Winogrodzki er 23 ára gamall og spilaði síðast með Wismut Gera í fimmtu deild í Þýskalandi en var áður með norska C-deildarliðinu Florö og pólsku liðunum Miedz Legnica, Kluczbork og Karkonosze Jelenia Gora.

Hann kemur í staðinn fyrir spænska markvörðinn Adrián Murcia sem lék með Leiknismönnum á síðasta tímabili þegar þeir komu skemmtilega á óvart og héldu sæti sínu í 1. deild á ævintýralegan hátt.

Magnús Björn Ásgrímsson, formaður knattspyrnudeildar Leiknis, sagði við mbl.is að væntanlega yrðu fjórir erlendir leikmenn með liðinu í ár. Auk Winogrodzki mun miðjumaðurinn Jesus Suárez spila áfram með Leikni en hann var fyrirliði liðsins seinni hluta síðasta tímabils og Magnús sagði að gert væri ráð fyrir að tveir til viðbótar myndu bætast í hópinn innan tíðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert