Nýr framherji Víkings hætti skyndilega við

Milos Ozegovic, Geoffrey Castillion og Muhammed Mert, leikmennirnir þrír sem …
Milos Ozegovic, Geoffrey Castillion og Muhammed Mert, leikmennirnir þrír sem Víkingar kynntu til leiks í dag. mbl.is/Andri Yrkill

Víkingur Reykjavík kynnti á fréttamannafundi í dag þrjá erlenda leikmenn sem leika með liðinu í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í sumar. Félagið hugðist kynna þann fjórða, hollenska framherjann Romario Kortzorg, en sá hætti skyndilega við að leika á Íslandi.

Víkingar sendu frá sér fréttatilkynningu í morgun þess efnis að nýr hollenskur framherji yrði kynntur á fundinum, auk þeirra Geoffrey Castillion, Mo Mert og Milos Ozegovic sem áður höfðu samið við félagið. Eftir að tilkynningin var send út lá ákvörðun Romario hins vegar fyrir, en hann var kominn til landsins:

„Honum leist ekki vel á það sem er í gangi hérna, ekki í Víkingi heldur í íslenska boltanum. Við fórum saman og horfðum á fjóra leiki hérna og honum fannst þetta ekki vera leikstíll sem passaði honum,“ sagði Milos Milojevic, þjálfari Víkinga.

„Ef leikmaður er með svona blendnar tilfinningar þá finnst mér miklu betra að vandamálin komi upp eftir þrjá daga heldur en eftir þrjá mánuði. Ég reyndi því persónulega ekki neitt til að snúa hans ákvörðun,“ sagði Milos.

Romario var leikmaður Dinamo Búkarest í Rúmeníu leiktíðina 2015-2016 og hafði svo leikið með Astra í rúmensku úrvalsdeildinni fyrri hluta þessa vetrar.

„Hann leit mjög vel út fótboltalega séð, en formið hans var ekki gott. Á sex vikum fram að móti hefði samt verið hægt að gera mikið. Ég er hins vegar ekkert að hugsa um hann lengur. Ég er með nóg af leikmönnum sem geta leyst hann af hólmi, en styrking væri kærkomin,“ sagði Milos sem vill þá freista þess að fá leikmann á næstu 7-10 dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert