Fjögur félög þurfa undanþágu KSÍ

KA fagnar sigrinum í 1. deild, en í bakgrunn má …
KA fagnar sigrinum í 1. deild, en í bakgrunn má sjá þaklausa stúku Akureyrarvallar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Í gær voru gefin út þátttökuleyfi á fundi leyfisráðs KSÍ fyrir keppnistímabilið 2017. Tvö félög í efstu deild þurfa að sækja um undanþágu til þess að fá keppnisleyfi, en á fundi ráðsins fyrir viku voru tvö önnur félög skikkuð til að sækja um undanþágu.

Um er að ræða Fjölni, ÍBV, KA og Víking Ólafsvík. Samkvæmt mannvirkjareglugerð er gerð krafa um að áhorfendastúkur í efstu deild séu með þaki og vantar það hjá öllum félögunum nema ÍBV. Hjá Eyjamönnum er völlurinn ekki nægilega vel girtur af og gerir nefndin kröfu um það af öryggisástæðum.

Haukur Hinriksson, leyfisstjóri KSÍ, segir að um formsatriði sé að ræða sem þurfi að fara í gegnum svo reglugerð sé fylgt.

„Það þarf því alltaf að fá sérstaka undanþágu sem stjórnin þarf að samþykkja, en er nokkuð algengt og hefur verið svona undanfarin ár með þau félög í efstu deild sem hafa ekki þak á stúkunum,“ segir Haukur við mbl.is og segir að þetta muni ekki hafa áhrif á þátttökuleyfi félaganna.

„Nei, það mun ekki gera það. Þetta eru bara formlegheitin þar sem þetta stendur í reglugerðinni og það þarf að fylgja henni,“ segir Haukur.

Ferlið er þannig að berast þarf skrifleg umsókn um undanþágu frá félögunum, sem svo er lagt fyrir mannvirkjanefnd. Nefndin leggur það svo fyrir stjórnarfund sem fram fer 30. mars næstkomandi og hafa félögin ráðrúm fram að því til þess að sækja um undanþágu.

„Félögin þurfa oft að sýna fram á að framkvæmdirnar séu í ákveðnu deiluskipulagi eða slíkt. En það er erfitt að gera kröfu um að orðið sé við þessu [þak á stúku] sem fyrst. Það er svo mikill kostnaður sem fylgir þessu og yfirleitt þurfa bæjaryfirvöld að taka þátt í því,“ segir Haukur Hinriksson, leyfisstjóri KSÍ, við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert