Viðar mætti undir áhrifum

Viðar Örn Kjartansson.
Viðar Örn Kjartansson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viðar Örn Kjartansson, landsliðsmaður í knattspyrnu, mætti undir áhrifum áfengis til móts við íslenska landsliðið í nóvember á síðasta ári. Þetta kom fram á fréttamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í dag.

Blaðamaður Vísis spurði Heimi Hallgrímsson landsliðsþjálfara út í málið, og staðfesti Heimir að umrætt atvik hefði komið upp. Um er að ræða þegar landsliðið kom saman á Ítalíu fyrir útileik gegn Króatíu í nóvember.

„Hann flaug til Ítalíu daginn áður en landsliðið kom saman. Sumu ráðum við yfir en öðru ekki. Það eru skýrar reglur um það hvað við leyfum og hvað ekki. Við höfum ekki rétt á að refsa mönnum fyrir það sem þeir gera utan landsliðsins,“ sagði Heimir.

En hafði atvikið einhver eftirmál?

„Auðvitað er rætt saman um svona hluti og þeir afgreiddir. Svona lagað kemur ekki fyrir aftur. Ég veit það og hef séð það á öllum hans aðgerðum að hann er í toppstandi núna,“ sagði Heimir og staðfesti að hann hefði rætt við Viðar um málið.

„Að sjálfsögðu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert