Gylfi hafði ekki góða tilfinningu

Gylfi Þór Sigurðsson í mikilli baráttu gegn Kósóvó í kvöld.
Gylfi Þór Sigurðsson í mikilli baráttu gegn Kósóvó í kvöld. AFP

„Þetta var gríðarlega erfitt,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson við RÚV strax eftir 2:1-sigur Íslands á Kósóvó ytra í undankeppni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu í kvöld, þar sem Gylfi átti frábæran leik.

Gylfi lagði upp fyrsta markið þegar Björn Bergmann Sigurðarson fylgdi á eftir skoti hans sem var varið, og Gylfi skoraði svo sjálfur annað markið af vítapunktinum.

„Þeir byrjuðu af krafti og við vorum í smá veseni í byrjun. En þetta hafðist og það skiptir máli. Við vorum ekki sérstakir í seinni hálfeik, þetta var mikið barátta um seinni boltann á miðjunni. En þetta gekk ágætlega í fyrri hálfleik,“ sagði Gylfi.

Hann er jafnan mjög öruggur á vítapunktinum en, hvað hugsaði hann fyrir spyrnuna?

„Bara að hitta á markið og skora, ég reyni að útiloka allt annað. Ég hafði ekki mjög góða tilfinningu fyrir þessu, þurfti að bíða lengi eftir að geta tekið spyrnuna en sem betur fer fór hann [markvörðurinn] í vitlaust horn. Við getum verið sáttir þó það hefði verið gott að bæta nokkrum mörkum við,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson í samtali við RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert