Gullfótur Gylfa dýrmætur

Íslendingar unnu gríðarlega mikilvægan 2:1 sigur gegn Kósóvum í undankeppni HM í knattspyrnu í Albaníu í kvöld og með sigrinum komst íslenska liðið í annað sæti riðilsins á eftir Króötum.

Íslendingar komust í 2:0 seint í fyrri hálfleik. Björn Bergmann Sigurðarson skoraði fyrra markið á 25. mínútu þegar hann náði frákastinu eftir að markvörður Kósóvó hafði varið gott skot frá Gylfa Þór Sigurðssyni. Björn Bergmann opnaði þar með markareikning sinn með íslenska landsliðinu.

Níu mínútum síðar bætti Gylfi Þór við öðru marki. Hann átti frábæra sendingu á Birki Má Sævarsson sem var felldur innan teigs og úr vítaspyrnunni skoraði Gylfi af miklu öryggi.

Kósóvar minnkuðu muninn á 53. mínútu þegar Atdhe Nuhiu skallaði boltann í netið en Íslendingu tókst að halda fengnum hlut og tryggja sér þrjú ákaflega dýrmæt þrjú stig.

Ekki verður sagt að íslenska liðið hafi leikið vel. Vörnin var nokkuð óörugg og það sást vel að miðvarðarparið Kári Árnason og Ragnar Sigurðsson virkuðu ryðgaðir en þeir hafa lítið spilað síðustu vikurnar. Gylfi Þór var heilt yfir besti leikmaður íslenska liðsins og gullfótur hans reyndist heldur betur dýrmætur í leiknum.

Króatar höfðu betur á móti Úkraínumönnum á heimavelli, 1:0, og þeir eru í toppsæti riðilsins með 13 stig, Íslendingar eru með 10 stig í öðru sæti, Úkraínumenn og Tyrkir eru með 8 og Finnar og Kósóvar eru með 1 stig.

Næsti leikur Íslendinga er á heimavelli gegn Króatíu þann 11. júní.

Kósóvó 1:2 Ísland opna loka
90. mín. Rúrik Gíslason (Ísland) fær gult spjald Fyrir að sparka boltanum í burtu eftir að það var dæmd á hann.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert