Vel stemmdar en ferðalagið viðbjóður

Fjölmenn varnarlína KR í hríðarmuggunni í Eyjum í kvöld.
Fjölmenn varnarlína KR í hríðarmuggunni í Eyjum í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Appelsínugulir KR-ingar úr Vesturbænum fóru fýluferð til Vestmannaeyja í dag þar sem liðið beið lægri hlut gegn ÍBV í fyrsta leik liðanna í Pepsi-deild kvenna. Leiknum lauk með 1:0 sigri Eyjakvenna en markið var í ljótari kantinum þar sem boltinn fór í Cloe Lacasse og rúllaði þaðan yfir marklínuna. 

Katrín Ómarsdóttir spilaði sinn fyrsta leik fyrir KR síðan árið 2009 í kvöld en hún gaf sér nokkrar mínútur til þess að ræða leikinn við mbl.is. 

„Mér fannst við verjast mjög vel, sérstaklega í fyrri hálfleik, við vorum þéttar mest megnis af leiknum. Fengum eitt skítamark á okkur en yfir heildina fannst mér við verjast vel og náðum við nokkrum færum í seinni hálfleik en hefðum getað haldið boltanum betur.“ 

KR varðist einmitt mjög vel í leiknum en þær virkuðu eins og þær vildu ekkert sækja að marki Eyjakvenna. 

„Í fyrri hálfleik var maður að bíða eftir að hann væri búinn, þær sóttu á okkur með vindinum og við náðum ekki að halda boltanum. Í seinni hálfleik náðum við aðeins fleiri sóknum en yfir heildina þurfum við að geta sótt aðeins betur.“ 

„Við vissum að þær myndu reyna að komast upp kantana og við vildum loka því. Þá urðu kantmennirnir okkar að vera komnir frekar langt aftur en þá var erfitt fyrir þær að vera komnar hátt upp aftur þegar við fengum boltann. Mér fannst við ná að loka vel á þær og við ætluðum að reyna að fá eitt mark í skyndisókn,“ sagði Katrín en sóknir KR-inga voru fáar og slakar. 

KR-liðið er nokkuð breytt frá því í fyrra þar sem meðal annars Katrín er komin inn í liðið, hvernig er liðið búið að virka? 

„Það hefur gengið mjög vel, þetta er fyrsti alvöru leikurinn þá sér maður betur hvernig við erum og hvernig við smellum saman sem lið. Mér fannst liðið stíga upp í dag miðað við undirbúningstímabilið og ég held að við verðum bara betri.“

KR-ingar þurftu að bíða lengi á flugvellinum áður en haldið var til Eyja í dag, truflaði það liðið eitthvað inni á vellinum? 

„Mér fannst það ekki, við mættum frekar vel stemmdar en ferðalagið var algjör viðbjóður í þessu veðri en ég held að það hafi ekki haft áhrif.“ 

Það er kannski nokkuð erfitt fyrir KR að byrja á útileik í Eyjum, á velli sem margir telja að sé sá erfiðasti heim að sækja. 

„Ég hélt það væri kannski fínt að klára Eyjar strax, það er fínt að vera búnar með það. Við hefðum vilja sækja einhver stig hérna en þetta er mjög erfiður útivöllur og mér fannst við standa okkur vel heilt yfir,“ sagði Katrín eftir leik en mikill snjókoma var í Eyjum á meðan leik stóð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert