„Ég hef trú á þessu, annars myndi ég fara í frí“

Ejub Purisevic, þjálfari Víkings Ólafsvíkur.
Ejub Purisevic, þjálfari Víkings Ólafsvíkur. mbl.is/Árni Sæberg

„Já mér finnst þetta sanngjörn niðurstaða,“ sagði Ejub Purisevic þjálfari Víkings Ólafsvíkur um 2:0 tapið gegn Val í kvöld. Valsmenn voru talsvert sterkari aðilinn í leiknum og fengu mörg færi. Besta færi Víkinga kom í seinni hálfleik þegar Guðmundur Steinn átti skalla í stöngina. 

„Mér finnst rosalega margt í leiknum okkar gott og margir fínir kaflar. Við vorum að spila vel á köflum, sérstaklega í seinni hálfleik. Við vorum agaðir og skipulagðir. Miðað við að allt þá var rosalega margt jákvætt,“ segir Ejub.

„Í fyrri hálfleik áttu þeir mörg góð færi. Eftir markið svörum við ágætlega og áttum góðan kafla en síðan fá þeir skyndisókn og þá er þetta búið.“

Aðspurður hvort hann geti haldið liðinu uppi sagði Ejub:

„Þetta verður góð áskorun og ég ætla að gera það besta. Ég hef fulla trú á því að ég geti haldið liðinu uppi, þangað til annað kemur í ljós. Ég hef fulla trú, annars myndi ég fara bara í frí.“

Hann segir að einhverjir leikmenn muni bætast við hópinn í sumar en of snemmt sé að segja til um það hverjir það eru.

Þorsteinn Már Ragnarsson sem hefur verið meiddur lengi var óvænt á skýrslu í dag. 

„Þorsteinn Már er ekki alveg 100% en samkvæmt sjúkraþjálfaranum okkar er gott fyrir hann að byrja svona hægt og rólega. Þetta er hluti af endurhæfingu, að fá smá leiktilfinningu og sjálfstraust. Ég á von á honum eftir nokkrar vikur. Hann er úr sveitinni og drekkur gott vatn og gæti því orðið fyrr tilbúinn,“ sagði Ejub að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert