Verið að flauta allan helvítis leikinn

Kristófer Sigurgeirsson, þjálfari Leiknis.
Kristófer Sigurgeirsson, þjálfari Leiknis. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er með því mest svekkjandi sem ég hef lent í, það er óbragð í munninum á mér," sagði Kristófer Sigurgeirsson, þjálfari Leiknis eftir svekkjandi 3:2 tap gegn HK í Kórnum í kvöld í 2. umferð Inkasso-deildarinnar í knattspyrnu. HK skoraði sigurmarkið nokkrum sekúndum fyrir leikslok.  

„Við lendum 2:0 undir og ég var hrikalega ánægður með að koma til baka úr því, við vorum að skapa færi, við settum hann í stöngina og vorum að komast einir í gegn, svo fáum við truflað mark í andlitið á okkur í lokin. Maður sá það um leið og þetta fór af löppinni af honum að þetta væri á leiðinni inn."

„Þetta eru tvö föst leikatriði og það er einhver sem tapar manninum sínum og því skora þeir þessi mörk. Mér fannst HK-ingarnir sterkari til að byrja með og mér fannst það ekki ósanngjarnt að þeir komust 2:0 yfir."

Kristófer var ánægður með margt í leik sinna manna í kvöld en bætir við að hann er ekki hrifinn af því að spila innandyra. 

„Það var margt fínt sem við gerðum í seinni hálfleik. Allt í einu erum við komnir inn þegar það er komið sumar og við spilum á gervigrasi, ég hef ekki gaman að því."

Blaðamaður mbl.is spurði Kristófer um dómara leiksins og hvort hann væri ekki ósáttur við fjölmörg ódýr gul spjöld sem hans lið fékk í leiknum. 

„Þetta er skarplega athugað hjá þér. Við vorum að fá mikið af gulum spjöldum sem við fáum fyrir litlar sakir eins og að sparka bolta í burtu þegar það er búið að gerast nokkrum sinnum hinum megin. Mér fannst tempóið lítið því það var verið að flauta allan helvítis leikinn. Það var verið að hægja á öllu, sérstaklega þegar HK var komið 2:0 yfir, þá fá þeir að hægja á leiknum," sagði hinn ósátti Kristófer að endingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert