Kærkomið þó þetta hafi verið vitleysa

Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA.
Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum allir að skríða saman eftir kærkominn sigur, þó þetta hafi verið hálfgerð vitleysa," sagði Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA er mbl.is spjallaði við hann í dag. Skagamenn unnu Fram, 4:3 í 32-liða úrslitum Borgunarbikars karla í gær, en Fram var 3:1 yfir þegar skammt var eftir. 

Dregið var í 16-liða úrslitunum í dag og fær ÍA heimsókn frá Gróttu í 16-liða úrslitum. 

„Ég er ekki alveg farinn að spá í þessu ennþá, við eigum mikilvægan leik á móti Grindavík á mánudaginn og það eru tveir deildarleikir áður en bikarleikurinn verður spilaður. Leikurinn við Gróttu bíður handan við hornið. Við byrjum á því að spá í þessum tveim leikum sem eru á undan."

„Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki mjög mikið um Gróttu. Tóti Dan er tekinn við og þeir spila tvo deildarleiki þar sem við getum skoðað þá og þá sjáum við hvernig þeir leggja upp sinn leik."

ÍA er án stiga eftir þrjár umferðir í Pepsi-deildinni og segir hann að sigurinn á Fram geti hjálpað liðinu í framhaldinu. 

„Leikurinn við Fram mun gefa okkur sjálfstraust. Við unnum upp tveggja marka forskot þegar það voru innan við tíu mínútur eftir og við sýndum mikinn karakter. Við höfum sýnt ágætis leik í öllum deildarleikjunum þó þeir hafi tapast og við gerðum atlögu að því að jafna í þeim öllum."

Garðar Gunnlaugsson, framherji ÍA var gagnrýndur eftir 2:1 tapið gegn KR í síðasta deildarleik. Garðar svaraði fyrir það með því að skora þrennu á móti Fram. 

„Garðar fékk skammir fyrir leikinn sinn á móti KR. Hann hefur viðurkennt það sjálfur að hann átti ekki sinn besta leik. Það eru skýringar á því, hann hefur verið að glíma við meiðsli og veikindi. Það var gríðarlega mikilvægt að ná þessum 90 mínútum gegn KR og að ná inn marki, í kjölfarið skoraði hann þrjú í viðbót gegn Fram. Það var mikilvægt fyrir hann að ná þessum tveimur leikjum."

„Hann svarar gagnrýninni á vellinum, það er mikilvægt. Hann fór ekki í það að svara á samfélagsmiðlum, sem er auðvelt þegar menn eru súrir. Garðar gerði þetta mjög fagmannlega," sagði Gunnlaugur að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert