Ekki hægt að líma saman

Hólmfríður Magnúsdóttir er að stíga upp úr meiðslum og kom …
Hólmfríður Magnúsdóttir er að stíga upp úr meiðslum og kom inná hjá KR. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég hef horft á alla leiki liðsins í ár og við erum að bæta okkur sem lið en allir leikir eru erfiðir,“ sagði Hólmfríður Magnúsdóttir í KR og þrautreynd með landsliðinu eftir 2:0 tap fyrir Þór/KA í Vesturbænum í dag.

„Mér fannst við  betri í fyrri hálfleik, sóttum miklu meira en þegar við fáum fyrra markið á okkur dettum við aðeins niður. Við erum samt að vinna allan leikinn, fáum fullt af hornspyrnu og færum, sem er jákvætt. Við þurfum bara að hafa miklu meiri trú á að við getum þetta og nú er bara næsti leikur. Við förum auðvitað í alla leiki til að vinna en það hefur ekki gengið og það var pirrandi að tapa í seinni hálfleik því mér fannst við ekkert verra liðið í leiknum. Auðvitað mun fyrr eða síðar eitthvað detta með okkur en það gerðist ekki í dag.“

Hólmfríður hefur átt við meiðsli að stríða og hefur komið inn á í tveimur síðustu leikjum KR.  „Þetta er annar leikurinn minn og ég hef ekki náð að æfa eins mikið og mig langar en þetta eru fyrstu skrefin. Þetta er allt þolinmæði en þessi meiðsli er ekki hægt að líma saman heldur þarf tíma.  Á meðan það gengur er ég alltaf ánægð með koma heil frá leik,“ bætti Hólmfríður við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert