Næsti leikur alltaf sá mikilvægasti

Sandra María Jessen.
Sandra María Jessen. Skapti Hallgrímsson

„Við komum af fullum krafti inn í seinni hálfleikinn því sá fyrri var ekki alveg nógu vel spilaður  og létum boltann ganga sem skilaði tveimur mörkum,“ sagði Sandra María Jessen sem kom fersk inn á til að aðstoða Þór/KA að sigra KR 2:0 í Vesturbænum í dag þegar 5. umferð efstu deildar kvenna fór fram. 

„Ég viðurkenni alveg að taugarnar voru þandar allan tímann því KR er með flott og vel spilandi lið svo þetta varð alvöruleikur en við vorum undirbúnar undir það og ætli það hafi ekki verið baráttan og þrautseigjan sem skilaði sigri í dag.“

Þór/KA trónir nú eitt á toppi deildarinnar. „Ég held að staða okkar í deildinni komi fólki úti í bæ sem þekkir ekki til okkar meira á óvart, að við séum í efsta sætinu,“ sagði Sandra María. „Við erum alveg rólegar, horfum bara á næsta leik og ætlum að taka þrjú stig í honum því sá leikur er alltaf sá mikilvægasti og ef við hugsum þannig allt tímabilið, held ég að við séum á góðri leið. Við vissum allan tíman að við gætum þetta en auðvitað þurfum við að vera sterkar og halda okkur á jörðinni. Það er fullt af erfiðum leikjum eftir, eins og deildin er, svo við þurfum að vera rólegar og horfa bara á næsta leik.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert