Skelfileg byrjun varð okkur að falli

Lauren Brennan, leikmaður Grindavíkur, í baráttu við Önnu Maríu Baldursdóttur, …
Lauren Brennan, leikmaður Grindavíkur, í baráttu við Önnu Maríu Baldursdóttur, leikmann Stjörnunnar, í leik liðanna í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var virkilega svekkjandi og það var markmiðið að gera mikið betur. Við byrjuðum leikinn skelfilega og vorum komnar þremur mörkum undir áður en við rifum okkur upp,“ sagði Guðrún Bentína Frímannsdóttir, fyrirliði Grindavíkur, í samtali við mbl.is eftir 4:1-tap liðsins gegn Stjörnunni í fimmtu umferð Íslandsmóts kvenna í knattspyrnu í dag.

„Við mættum af krafti inn í seinni hálfleikinn, en sá kraftur var of lítill og varði í of skamman tíma. Við vorum ekki nógu einbeittar í varnarleiknum og vorum að missa leikmenn of auðveldlega bak við varnarlínuna okkar,“ sagði Guðrún Bentína um spilamennsku Grindavíkur í leiknum.

Grindavík er með sex stig eftir fimm umferðir og Guðrún Bentína er hæfilega ánægð með þá uppskeru.

„Við erum náttúrulega nýliðar í þessari deild og það mátti alveg búast við því að þetta yrði erfitt í upphafi mótsins. Við myndum hins vegar að sjálfsögðu vilja vera með fleiri stig á þessum tímapunkti og við verðum að gera betur í næstu leikjum til þess að fara að hala inn fleiri stigum,“ sagði Guðrún Bentína um byrjun Grindavíkur í sumar og framhaldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert