Stjarnan á toppinn – Valur rétti úr kútnum

Stjarnan tyllti sér á topp Íslandsmóts kvenna í knattspyrnu með 4:1-sigri sínum gegn Grindavík þegar liðin mættust í fimmtu umferð deildarinnar á Samsung-vellinum í dag.

Ana Victoria Cate kom Stjörnunni tveimur mörkum yfir með mörkum sínum með sjö mínútna millibili þegar um það bil stundarfjórðungur var liðinn af leiknum. Anna María Baldursdóttir bætti síðan þriðja marki Stjörnunnar við um miðbik fyrri hálfleiks.

Grindavík hóf seinni hálfleikinn af miklum krafti og Carolina Mendes minnkaði muninn fyrir gestina í upphafi síðari hálfleiks.

Katrín Ásbjörnsdóttir slökkti hins vegar þann vonarneista sem kviknað hafði í hjörtum Grindavíkur þegar hún skoraði fjórða mark Stjörnunnar úr vítaspyrnu skömmu síðar.

Katrín hefur nú skorað sex mörk í fyrstu fimm leikjum deildarinnar, en hún er markahæsti leikmaður deildarinnar eins og sakir standa. 

Valur hafði betur gegn Fylki, 2:0, á Fylkisvellinum. Margrét Lára Viðarsdóttir kom Val yfir með marki úr vítaspyrnu og Elín Metta Jensen innsiglaði kærkominn sigur Vals. Þar áður hafði Jesse Shugg brennt af vítaspyrnu fyrir Fylki.

Stjarnan er á toppi deildarinnar með 13 stig eftir fimm umferðir. Þór/KA getur hrifsað toppsætið af Stjörnunni með sigri gegn KR, en liðin mætast klukkan 16:00 í dag.

Valur og Grindavík eru bæði með sex stig í sjötta og sjöunda sæti deildarinnar og Fylkir er sæti neðar með þrjú stig.

Stjarnan 4:1 Grindavík opna loka
90. mín. Leik lokið Leik lokið með öruggum sigri Stjörnunnar. Valur er að innbyrða sigur á Fylkisvellinum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert