Þetta eru hættulegustu leikirnir

Lillý Rut Hlynsdóttir.
Lillý Rut Hlynsdóttir. Skapti Hallgrímsson

„Við náðum ekki alveg að spila okkar fótbolta í byrjun og það er erfitt að koma á þennan völl svo við vissum að þetta yrði erfitt,“ sagði Lillý Rut Hlynsdóttir, fyrirliði Þórs/KA, eftir 2:0 sigur á KR-konum í Vesturbænum í dag þegar 5. umferð efstu deildar kvenna lauk.

Sigurinn fékkst þó ekki þrautalaust því KR-konur, sem hafa nú tapað öllum fimm leikjum sínum, reyndust sýnd veiði en alls ekki gefin og voru betra liðið fyrir hlé. „Við vissum sjálfar í hálfleik hvernig við stóðum okkur en þjálfarinn minnti okkur samt á það og að við þyrftum að róa okkur aðeins niður, það þyrfti ekki að skora mark í hverri sókn og það gekk upp. KR spilaði líka mjög vel í fyrri hálfleik en þegar við náðum að brjóta ísinn kom þetta hægt og rólega.“

Þór/KA var spáð 4. sæti deildarinnar í ár af þjálfurum, fyrirliðum og forráðamönnum deildarinnar, en eftir sigur á háttskrifuðum liðum Vals og Breiðabliks auk þriggja liða í neðri hluta deildarinnar er spáin enn sem komið er ekki að ganga eftir. „Við spáum ekkert í þessa spá, okkar markmið er bara að vinna og það er það eina sem skiptir bara máli. Það getur verið svolítið erfitt að halda haus í hverjum leik en við verðum líka að vinna liðin í neðri hluta deildarinnar því það geta allir unnið alla í þessari deild, sem er orðin svo sterk og þetta eru hættulegustu leikirnir. Ég held að það séu svo flottar stelpur og flottir karakterar í þessu liði að ég hef fulla trú á að við náum að halda haus,“ bætti fyrirliðinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert