Jafnt í öllum nema einum

Sigurður Grétar Benónýsson skorar fyrir ÍBV gegn Víkingi Ó. síðasta …
Sigurður Grétar Benónýsson skorar fyrir ÍBV gegn Víkingi Ó. síðasta sumar án þess að Tomasz Luba og Aleix Egea nái að stöðva hann. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Óhætt er að segja að jafnræði hafi verið með Ólafsvíkingum og Eyjamönnum í þau skipti sem þeir hafa mæst í efstu deild karla í knattspyrnu en Víkingur Ó. tekur á móti ÍBV í Pepsi-deild karla klukkan 14 í dag.

Þetta verður fimmta viðureign félaganna á milli í efstu deild en þar sem Víkingur hefur aðeins leikið áður í deildinni árin 2013 og 2016 hafa Ólafsvíkingar ekki mætt neinu félagi oftar á þessum vettvangi.

Liðin skildu jöfn í báðum viðureignum sínum árið 2013. Þau gerðu fyrst markalaust jafntefli í Ólafsvík og svo 1:1 í Vestmannaeyjum þar sem Víðir Þorvarðarson skoraði fyrir ÍBV og Farid Zato fyrir Víking.

Þriðja jafnteflið leit dagsins ljós í Eyjum á síðasta ári, 1:1, en þá skoraði Sigurður Grétar Benónýsson fyrir ÍBV og Hrvoje Tokic fyrir Víking.

ÍBV náði síðan að vinna seinni leikinn í Ólafsvík þar sem Gunnar Heiðar Þorvaldsson skoraði sigurmarkið, 1:0.

Þar á undan mættust ÍBV og Víkingur síðast í 1. deild árið 2008 þar sem Eyjamenn unnu 2:0 í Ólafsvík og 3:1 á Hásteinsvelli.

Bæði lið unnu sinn fyrsta leik á tímabilinu í þriðju umferðinni þar sem Ólafsvíkingar sigruðu Grindvíkinga 3:1 á útivelli og eru með 3 stig í 9. sæti deildarinnar en Eyjamenn lögðu Víking R. á heimavelli og eru með 4 stig í 8. sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert