„Þetta á ekki að gerast“

Halldór Smári Sigurðsson, varnarmaður Víkings.
Halldór Smári Sigurðsson, varnarmaður Víkings. mbl.is/Árni Sæberg

„Það svíður mjög mikið að tapa fótboltaleik á tveimur hornspyrnum. Þetta á ekki að gerast,“ sagði Halldór Smári Sigurðsson, varnarmaður Víkings R., eftir 2:3 tap gegn Breiðabliki á heimavelli í dag.

„Maður þarf ekki að geta neitt í fótbolta til að geta varist föstum leikatriðum. Þetta er bara einhver aumingjaskapur. Einbeitingarleysi og bull,“ bætti Halldór við aðspurður hvað hafi farið úrskeiðis í leiknum.

Spilamennska Víkinga hefur verið ágæt það sem af er móti en illa hefur gengið að safna stigum.

„Mér finnst við koma vel inn í þessa leiki, við erum að spila vel úti á vellinum en það er bara vandamál að við erum að leka inn of mörgum mörkum. Það er það sem er að tapa leikjunum.“

Milos Milojevic hætti sem þjálfari liðsins á föstudaginn. Voru einhverjar áherslubreytingar gerðar fyrir þennan leik?

„Nei, engar sérstakar. Bara að reyna að fá meiri gleði inn í þetta. Þetta var búið að vera smá þungt, við vorum að reyna að fá meiri léttleika inn í þetta og þjöppuðum okkur vel saman fyrir þennan leik. En allt kom fyrir ekki og við verðum að reyna aftur næst. We go again,“ sagði Halldór Smári að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert